Það skiptir máli hverjir stjórna

Dennis van de Water/Shutterstock.
Margir segja að ekki skipti máli hverjir fara með völd. Niðurstaðan verði alltaf sú sama.
Ef menn horfa á skattamál, á það hverju þeir fá sjálfir að halda eftir af laununum sínum og hvað stjórnmálamenn taka mikið af þeim, sjá þeir talsverðan mun eftir því hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn.
Fjárlög voru samþykkt rétt fyrir jól og var þá tekist á um í hvaða átt ætti að færa skattheimtuna.
 
Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins fjallar um þetta í grein í Morgunblaðinu í dag:
Þegar nýtt ár gengur í garð getur íslenskt launafólk fagnað áfangasigri. Milliþrep tekjuskatts fellur niður og skatthlutfall neðra þrepsins lækkar. Tekjuskattskerfið verður einfaldara og einstaklingar halda meiru eftir af því sem þeir afla. Um áramótin verður einnig stigið enn eitt skrefið við afnám tolla. Íslenskir neytendur munu njóta lægra vöruverðs með frjálsari utanríkisviðskiptum.
Þetta er rétt hjá Óla Birni. Skattarnir lækka um áramótin. Lækkunin er ekki mikil en hún er samt mun meiri en vinstrimenn hefðu viljað. Þeir vildu reyndar enga lækkun. EIns og Óli Björn rekur í greininni reyndu vinstrimenn að afturkalla þær skattalækkanir sem samþykktar voru með fjárlagafrumvarpinu. Vinstrigrænir börðust auk þess fyrir verulegum skattahækkunum, fyrir utan afturköllun þeirra lækkana sem lagðar voru til.
Tilraunir vinstrimanna mistókust. Sjálfstæðisflokkurinn studdi skattalækkanirnar eindregið og nægilega margir aðrir höfnuðu tillögum vinstrimanna, þótt margir hafi sagst gera það af tæknilegum ástæðum. Þess vegna munu skattgreiðendur njóta svolítilla skattalækkana um áramótin. En þykir þeim lækkanirnar litlar ættu þeir að mun að vinstrimönnum þóttu jafnvel þær lækkanir allt of miklar. Vinstrimenn vildu engar lækkanir.