Hér er ávísunin og svo er hér ein óútfyllt

Alþingi samþykkti fjárlög næsta árs skömmu fyrir jól. Meðal þess sem töluvert var rætt við fjárlagavinnuna voru framlög til heilbrigðiskerfisins. Niðurstaðan varð sú að framlög til þess voru aukin um marga milljarða frá síðasta ári, en þó ekki eins marga og stjórnendur í kerfinu vilja. Opinber framlög til heilbrigðismála halda því áfram að aukast ár frá ári og líklega mun sú þróun halda áfram um ókomin ár.

Það þarf ekki að koma á óvart að opinber útgjöld séu aukin til heilbrigðismála. Þar er margt hægt að gera við peningana og raunveruleg brýn verkefni sem þar er sinnt. Það sem hins vegar var vafasamt við fjárlagagerðina var að því var lýst yfir, að ef spítalarnir teldu sig samt þurfa að grípa til uppsagna eða niðurskurðar yrðu framlögin aukin í fjáraukalögum.

Þingmenn eiga að samþykkja fjárlög. Þeirra hlutverk er að skipta opinberum peningum milli stofnana og verkefna sem ríkið sinnir. Þetta geta verið lífsnauðsynleg verkefni eins og spítalarnir, landhelgisgæslan og kærunefnd jafnréttismála, en það er hlutverk þingmanna að úthluta peningunum. Það er svo hlutverk forstöðumanna stofnananna að reka þær innan fjárlaga. Þingmenn eiga ekki að gefa stofnunum frítt spil til útgjalda.

Og stjórnmálamenn ættu að sinna betur því hlutverki að segja fólki nákvæmlega hvernig opinber útgjöld til einstakra málaflokka hafa þróast undanfarin ár. Margir trúa því að í málaflokkum þar sem útgjöld hafa verið aukin árum saman standi yfir blóðugur niðurskurður.