Eiga skattar á bensín áfram að vera hærri en á Diesel?

Áfram verður haldið með hina ómálefnalegu mismunun milli bensíns og Dieselolíu sem viðgengist hefur frá tíð vinstri stjórnarinnar.

Aðflutningsgjöld af bensínbílum eru hærri en sambærilegum Dieselbílum. Þar er átt við vörugjöldin. Bifreiðagjöld af bensínbílum eru sömuleiðis hærri en af Dieselbílum.

Að lokum eru svo hærri skattar á hvern lítra bensíns en hvern lítra Dieselolíu. Þar munar um 10 krónum á lítra.

Þessi neyslustýring er arfleið frá hreinu vinstri stjórninni. Hún taldi rétt að ýta mönnum úr bensínbílum – sem flestir Íslendingar höfðu kosið – yfir í Dieselbíla því þeir síðarnefndu væru betri fyrir umhverfið.

Þetta hafði verið gert í löndum Evrópusambandsins frá því um aldamót, sömuleiðis í nafni umhverfisins. En á sama tíma og vinstri stjórnin var að innleiða þessa stefnu hér á landi hafði runnið upp fyrir mönnum að útblásturinn frá Dieselbílum er margfalt verri en frá bensínbílum vegna sóts og NOx.

Nú ræða því evrópskir stjórnmálamenn um að styrkja fólk til að losa sig við Dieselbílana sem þeir hvöttu menn áður til að kaupa. Jafnvel er rætt um að banna þá. Svona er nú gæfulegt að láta stjórnmálamenn stýra neytendum. Leiðin til ánauðar er vörðuð góðum

Nú hafa verið kynntar tillögur til 4,71% hækkunar á öllum eldsneytisgjöldum fyrir næsta ár í frumvarpi til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017. Þar er haldið áfram með þessa sótsvörtu stefnu.

Sérstakir skattar á bensínlítrann (vörugjöld og kolefnisgjald) á næsta ári verða 75,55 krónur á hvern lítra. Á lítra af Dieselolíu verða hins vegar lagðir sérstakir skattar upp á 66,40 krónur á lítra. Þegar virðisaukaskattur hefur lagst ofan á þessa sérstöku skatta er sérstaki skatturinn á bensín ríflega 10 krónum hærri en á Diesel.

Þetta er ómálefnaleg mismunun og til að byrja að vinda ofan af henni mætti sleppa hækkuninni á bensíngjöldum að þessu sinni eða lækka einfaldlega bensínskattana.