Útvextir og innviðir

Það mætti gera margt við peningana sem fara í vaxtagreiðslur

Marga langar til að auka opinber útgjöld, fá meira fé frá skattgreiðendum til málaflokka eða einstakra verkefna. Margar slíkar óskir eru af góðum hug, aðrar eru bara af frekju.

Ein stærstu ríkisútgjöld þessa árs og næstu ára eru útgjöld sem allir stjórnmálaflokkar ættu að taka sig saman um að skera rækilega niður, þar til þau eru alveg horfin. Það eru vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Þær nema nú tugum milljarða króna á ári og miðað við horfur mun ríkið halda áfram að greiða marga tugi milljarða á ári, næstu árin.

Þetta er fé sem annað hvort mætti hætta að taka af skattgreiðendum, eða nota í annað sem hið opinbera gerir.

En til þess að hætta að borga þessa vexti, þarf að greiða skuldir ríkisins niður. Það er eitt allra brýnasta verkefni stjórnmálamanna að tryggja að skuldirnar verði greiddar sem allra fyrst.

Margir stjórnmálamenn tala um „innviði“. Skuldir ríkisins eru í þeirri samlíkingu eins og veggjatítla sem étur viðinn upp.

Hvort sem menn telja brýnna að lækka skatta eða auka opinber útgjöld ættu þeir að geta sameinast um að gera meira til þess að ríkið þurfi ekki að greiða tugi milljarða í vexti árlega.

Þess vegna er stefnt að afgangi á fjárlögum. Þess vegna eiga menn ekki að setja ný útgjöld í forgang.

Vikum saman hafa vinstrimenn setið og reynt að mynda ríkisstjórn. Fréttir leka um að rætt sé um ný útgjöld og nýja skatta. En lítið hefur verið sagt um viðræður þeirra um niðurgreiðslur opinberra skulda.

Og sveitarstjórnarmenn ættu að huga vel að skuldum sveitarfélaganna. Mörg sveitarfélög hafa nýtt góðærið undanfarið til að lækka skuldabyrði sína, en þar má gera betur.

Ef menn nýta ekki stöðuna sem nú er til að borga skuldirnar og lækka vaxtabyrðina, hvenær halda menn að það verði gert? Næst þegar harðnar á dalnum?