Hvað segja lekaliðar nú?

Það er kannski von til þess að menn hugsi um svonefnda leka á annan hátt en áður ef það sannast að rússnesk yfirvöld hafi stolið og dreift óþægilegum gögnum um demókrata.

Undanfarin ár hafa „lekar“ verið hafnir mjög upp. Nema reyndar í svonefndu lekamáli í innanríkisráðuneytinu íslenska.

Í flestum tilvikum eru lekar hins vegar aðeins annað orð yfir þjófnað á gögnum á borð við tölvupóst og bankayfirlit. Ekki er notað kúbein til að brjótast inn og sækja þessi gögn heldur er brotist í gegnum tölvukerfi eða þá að innanbúðarmaður bregst trausti fyrirtækis eða stofnunar og tekur afrit af gögnunum í heimildarleysi.

Flestir fjölmiðlar virðast hagnýta sér þýfi af þessu tagi með glöðu geði. Og fá jafnvel verðlaun fyrir.

Það nýjasta í lekamálum eru óljósar fréttir af því að rússnesk yfirvöld hafi haft hönd í bagga með því að tölusamskipti forystu bandarískra demókrata fóru á flakk í haust. Þar var eins og gengur í tölvupóstum milli kunnugra ýmislegt sagt sem lítur alls ekki vel út þegar það er slitið úr samhengi og birt sem fyrirsögn í sjónvarpi eða frétt sem dreift er á hinum marglofuðu samfélagsmiðlum. Bandarísk lögregluyfirvöld virðast telja að rekja megi þessa leka til Moskvu.

Hillary Clinton forsetaframbjóðandi demókrata gengur svo langt að segja að þetta hafi haft áhrif á útslit forsetakosninganna vestra.

Kannski verður þetta til þess að fjölmiðlamenn gæti betur að sér framvegis þegar þeim er boðið á lekaspenann og hætti að líta á það sem sjálfsagðan hlut að gerast þjófsnautar.