Framsóknarmenn halda í dag upp á aldarafmæli flokks síns og auðvitað verður að viðurkenna að þeir hafa þar miklum áfanga að fagna. Svo er ekki hægt að hafa það af þeim að þeir geta með réttu bent á að á hundraðasta afmælisdaginn er formaður Framsóknarflokksins einnig forsætisráðherra landsins, þótt hann hafi reyndar beðist lausnar fyrir ríkisstjórnina fyrir mörgum vikum. Ætli margir hefðu búist við því, vorið 2008, að árið 2016 væru tveir næstu formenn Framsóknarflokksins búnir að vera forsætisráðherra?
Framsóknarflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn meira en tvo þriðju hluta starfstíma síns. Að vísu hefur ójafnt vægi atkvæða gert hlut hans meiri en ella væri og á fyrstu áratugunum miklu meiri, en engu að síður er ekki hægt að neita því að flokkurinn hefur notið töluverðs stuðnings og haft mikil áhrif. Verk hans hafa þó alls ekki öll verið í rétta átt, svo sem barátta flokksins gegn verslunarfrelsi og hagsmunum höfuðborgarinnar, sérstaklega á fyrstu áratugum flokksins. En hann hefur einnig átt góðan hlut að mörgum betri málum.
Síðustu vikur hefur verið reynt að mynda ríkisstjórn. Hafa allir flokkar rætt við alla nema enginn við Framsóknarflokkinn, sem þó ræður nú yfir forsætisráðherra landsins. Er í umræðuþáttum stundum gefin sú skýring að Framsóknarflokkurnn sé „ekki stjórntækur“ vegna deilna milli núverandi og fyrrverandi formanns flokksins. Engin nánari skýring er gefin á þessu, sem ekki þarf að koma á óvart því þetta stenst engan veginn. Þótt augljóst sé að grunnt sé á því góða milli þessara tveggja manna gerir það flokkinn ekki ófæran um að eiga aðild að ríkisstjórn, enda alvanalegt í stjórnmálaflokkum að menn takist á innbyrðis um forystuhlutverk.
Heldur kannski einhver að stjórnarþingmaðurinn Sigmundur Davíð ákveði að fella ríkisstjórn sem Framsóknarflokkurinn á aðild að, bara til að gera Sigurði Inga Jóhannssyni óleik? Þeir sem halda fram frasanum um að Framsóknarflokkurinn sé „óstjórntækur“ gera það eingöngu til að auka vægi síns eigin flokks, því sé Framsóknarflokkurinn ekki talinn með fækkar hugsanlegum stjórnarmyndunarmöguleikum og þar með aukast möguleikar annarra smærri flokka á að semja sig í stjórn.
Á síðasta kjörtímabili voru þingmenn Pírata þrír og þurftu vinnustaðasálfræðing til að vinna saman. Nú eru Píratarnir tíu og enginn þeirra, sem segir að Framsóknarflokkurinn sé ekki stjórntækur, sér neitt að því að Píratar fari í stjórn.
Hvað sem mönnum finnst um Framsóknarflokkinn og einstaka forystumenn hans þá er sjálfsagt að óska flokknum til hamingju með afmælið. Það er mikill árangur að starfa í heila öld, leiða margoft ríkisstjórn og eiga enn forsætisráðherrann. Í framtíðinni er óskandi að Framsóknarflokkurinn geri meira af því sem hann hefur gert best, og minna af því sem hann hefur gert verst. Ef flokkurinn styður hófsemd í skattheimtu, ráðdeild í opinberum rekstri og traust og frjálst borgaralegt þjóðfélag má óska honum velfarnaðar.