Alþingi hefur nú komið saman og eitt allra fyrsta verk þingmanna var að kjósa forseta Alþingis. Það er mjög valdamikil staða en ekki síður virðingarmikil staða.
Hvern kusu svo þingmenn allra flokka? Hver fékk 60 atkvæði af 61 greiddu?
Það var Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þetta er svolítið dæmi um hve heiftin í íslenskum stjórnmálum er misjöfn. Hversu líklegt er að vinstrimenn hefðu verið fáanlegir að kjósa einhvern af helstu leiðtogum andstæðinganna í þetta starf við núverandi aðstæður? Og ef slíkt samkomulag hefði verið gert milli flokkanna, hversu margir af þeim sem hefðu virt samkomulagið hefðu gert það með ólund og neikvæðum athugasemdum? Hvernig hefðu umræðumenn vinstrimanna látið?
Þegar Steingrímur J. Sigfússon, annar aðalleiðtogi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, er boðinn fram fær hann 60 atkvæði hjá 61 viðstöddum. Sjálfur segist hann hissa á þessum mikla stuðningi og veit líklega sem er að ekki hefðu allir félagar hans verið reiðubúnir til að kjósa andstæðing með þessum hætti.
Nú þarf enginn að efast um að Steingrímur þekki þingsköpin vel og hann getur alveg örugglega stjórnað þinginu af röggsemi. Sé hann allur af vilja gerður að standa sig vel í hlutverkinu og gæta réttinda bæði stjórnar og stjórnarandstöðu þarf enginn að kvíða því að hann setjist í forsetastólinn. En menn geta ímyndað sér hvernig vinstrimenn hefðu tekið hugmynd um sambærilegan forseta úr röðum núverandi stjórnarflokka. Þá hefðu líklega heyrst upptalningin af málunum sem ættu að gera það að verkum að engin sátt gæti náðst um þá. Þegar Steingrímur J. Sigfússon er boðinn fram er enginn sem nefnir Icesave eða landsdóm, ESB eða ríkisstjórn Jóhönnu. Hann fær einfaldlega 60 atkvæði frá 61 viðstöddum.
Eini fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks sem situr á þingi er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hversu margir vinstrimenn hefðu virt samkomulag um að kjósa hann? Og jafnvel þótt Wintris-málið hefði ekki komið upp í vor, hversu margir vinstrimenn hefðu verið fáanlegir í samkomulag um að kjósa Sigmund, jafnvel aðeins til nokkurra daga?
Þetta er ekki stórt mál en eftirtektarvert að vissu leyti.