Ein mikilvægasta bók sem gefin var út á síðasta áratug tuttugustu aldar var franska stórvirkið Svartbók kommúnismans. Eftir fall kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu fengu fræðimenn aðgang að skjalasöfnum sem áður voru lokuð. Varð það til þess að skýrari mynd fékkst af þeim hryllingi sem leiddur var yfir stóran hluta heimsbyggðarinnar, þar sem kommúnistar náðu völdum. Sá hópur sérfræðinga sem stóð að Svartbók kommúnismans áætlar að kommúnisminn hafi kostað um hundrað milljónir manna lífið, enda ber bókin undirtitilinn „Glæpir, ofsóknir, kúgun“.
Hryllingur kommúnismans er ekkert leyndarmál. Hver einasti upplýstur maður ætti að þekkja til hans í stórum dráttum, þótt auðvitað geti menn ekki skilið hann til fulls, séu þeir svo heppnir að hafa sjálfir sloppið við hann. Kommúnisminn, ásamt nasismanum, hafði í för með sér hryllilegustu manngerðu hörmungar sögunnar.
Nú er nýlátinn Fidel Castro sem stýrði kommúnistastjórninni á Kúbu í tæplega hálfa öld. Þegar ellin færðist yfir hann lét hann völdin í hendur varnarmálaráðherrans, Raúls Castros, sem enn stýrir landinu.
Svartbók kommúnsmans kom út árið 1997. Í henni segir um ástandið á Kúbu undir stjórn Fidels Castros:
Frá 1959 og fram í lok tíunda áratugar urðu meira en 100 þúsund manns á Kúbu að sæta vist í vinnubúðum, fangelsum eða undir opinni gæslu. Um 15-17 þúsund voru skotin. „Ekkert brauð án frelsis, ekkert frelsi án brauðs,“ mælti hinn ungi lögfræðingur Fidel Castro 1959. En eins og einn andófsmaðurinn sagði, áður en aðstoð Ráðstjórnarríkjanna lauk og stjórnarhættir breyttust nokkuð: „Fangelsi, þar sem menn geta satt hungur sitt sæmilega, er samt sem áður fangelsi.“
Þegar vestrænir vinstrimenn minnast Fidels Castros er það yfirleitt fyrst og fremst fyrir að hafa staðið uppi í hárinu á Bandaríkjamönnum.