![](https://andriki.is/wp-content/uploads/2016/10/eymdarvístitala-832x450.png)
Svonefnd eymdarvísitala var fyrst sett fram af bandaríska hagfræðingnum Arthur Okun. Með vísitölunni eru lagðir saman tveir óæskilegir þættir efnahagslífsins: verðbólga og atvinnuleysi.
Tryggvi Þór Herbertsson hagfræðingur vekur athygli á því á Facebook síðu sinni að þessi vísitala hafi aldrei verið lægri fyrir Ísland frá því mælingar hófust en einmitt nú og birtir grafið hér að ofan því til vitnis.
Tryggvi segir að vísitalan geri ráð fyrir að því hærra sem atvinnuleysi og verðbólga séu því lakari sé efnhagsleg velferð borgaranna.
Vissulega kemur fleira til en þessir tvær þættir þegar hagsæld er mæld en það er engu að síður afar mikilvægt að þeir séu í lagi. Væntanlega þarf ekki miklar útskýringar á því hvaða áhrif mikið atvinnuleysi hefur og mikil verðbólga grefur undan áætlunum fólks og færir verðmæti tilviljanakennt á milli fólks og fyrirtækja.
Einn helsti mælikvarðinn á efnahag þjóða er svonefnd landsframleiðsla í mann. Gísli Hauksson forstjóri Gamma vakti á því athygli í viðtali í Morgunblaðinu á laugardaginn að Ísland sé nú í fimmta sæti á lista yfir þær þjóðir heims þar sem landsframleiðsla á mann er hæst. Aðeins Lúxemborg, Sviss, Katar og Noregur eru fyrir ofan Ísland á listanum og eins og Gísli bendir á eru Lúxemborg og Katar ekki að öllu leyti samanburðarhæf vegna þess að þar starfi miklu fleira fólk en í raun byggi löndin.
Og Gísli vekur athygli á því að ólíkt Bandaríkjunum og Evrópu sé hagvöxtur hér verulegur og því bjart framundan ef menn fari varlega.
Það má ekki stórauka ríkisútgjöld og það verður að spara fjármuni til mögru áranna. Ríkissjóður er hins vegar á réttri braut með fjármálaáætlun sem felur í sér mikla skuldalækkun. Ef rétt er haldið á málum tel ég að hægt sé að gera ríkissjóð skuldlausan á næstu fimm árum. Hið opinbera segist ætla að taka skuldahlutfallið niður fyrir 30% af vergri landsframleiðslu á þessum tíma en ég tel að það sé hægt að gera mun betur.