Undanfarna mánuði hefur Ríkissjónvarpið fagnað hálfrar aldar afmæli sínu. Fjölmargar gamlar myndir eru sýndar í stuttum þáttum og gerð er atlaga að Norðurlandametinu í sjálfshóli.
Og auðvitað hefur Ríkisútvarpið frá mörgu að sýna. Fyrstu áratugina naut það lögbundinnar einokunar til íslensks sjónvarps og alla tíð hefur það haft einstæðan aðgang að fjármunum almennings. Áratugum saman var öllum eigendum sjónvarpstækja skylt að greiða afnotagjöld til Ríkisútvarpsins þótt einn hópur manna hafi ekki verið rukkaður. Starfsmenn Ríkisútvarpsins fengu ekki gíróseðla fyrir afnotagjöldunum, hvar sem heimildin var nú til þess.
Þegar hætt var að innheimta afnotagjöld var tekið upp útvarpsgjald sem fyrirtækjum og öllum einstaklingum á tilteknu aldursskeiði er skylt að borga á hverju ári. Afar illa hefur gengið að fá það gjald lækkað.
Ríkisútvarpið fær þannig gríðarlegar tekjur á hverju ári frá fólki, gjöld sem eru innheimt af því nauðugu.
Það þarf ekki að koma á óvart þótt stofnun sem býr svo vel geti gert eitt og annað. Eða að hún geti dregið ýmislegt fram úr skúffum sínum til að halda upp á afmæli sitt.
Margt er það sem fær opinbera styrki. Þeir, sem eru ánægðir með starfsemina sem fær styrkina, telja stundum að þar sem komin sönnun þess hversu styrkirnir séu nauðsynlegir. Án þessa styrks hefði þessi sýning ekki verið sett upp, þessi bók ekki þýdd, þessi kór ekki farið í þetta ferðalag. Án framlags borgarinnar væri þetta kvikmyndahús ekki í rekstri, þessi stúka hefði ekki verið byggð við fótboltavöllinn, þessi myndlistarsýning ekki verið haldin.
Sýningin sést, bókin sést, stúkan sést. Þeir sem eru ánægðir með sýninguna, bókina og stúkuna telja opinbera styrki alveg bráðnauðsynlega.
En hvað með það, sem ekki fékk að verða til, af því að ríkið var búið að ná til sín peningunum?
Þá peninga, sem ríki og sveitarfélög veita í styrki, hafa þau tekið með skattlagningu frá einstaklingum og fyrirtækjum. Einstaklingarnir og fyrirtækin nota þá ekki peningana í neitt annað á meðan. Einstaklingurinn kaupir sér hvorki bók né bíómiða fyrir peninginn sem var tekinn af honum í skatta. Ríkið hækkar tryggingagjald og verkstæði segir upp starfsmanni. Hann skráir sig úr bókaklúbbnum og sleppir því að fara á völlinn.
Þetta sama á við um stóra og dýra hluti. Ríkið tekur milljarða af atvinnulífinu og notar þá til að byggja brú yfir fjörð. Allir sjá brúna. Hún er til marks um mikilvægi opinberra framkvæmda. En enginn sér það sem fyrirtækin hefðu þróað ef þau hefðu ekki verið skattlögð. Enginn saknar þess. Enginn dregur af því þá ályktun að gæta verði hófs í opinberum útgjöldum.