Ef marka má nýjustu skoðanakannanir í Frakklandi eiga gamalgrónu vinstriflokkar landsins undir högg að sækja. Samkvæmt könnunum yrði leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen, annar tveggja efstu frambjóðendanna, en hinn yrði frambjóðandi hægrimanna, hvort sem Nicolas Sarkozy eða Alain Juppe verða fyrir valinu í forkosningum þeirra. Núverandi forseti, sósíalistinn Hollande, er samkvæmt könnunum langt að baki þeim og sama má segja um aðra líklega frambjóðendur af hinum hefðbundna vinstrivæng.
Hvað ætli franskir vinstrimenn kjósi í síðari umferðinni, ef frambjóðendur þar verða Marine Le Pen og svo einhver þeirra þriggja, Sarkozy, Juppe og Hollande? Hvað munu franskir femínistar kjósa? Hvað munu franskar konur kjósa? Munu frönsku kvennahreyfingarnar hvetja til þess að kona verði í fyrsta sinn kjörin forseti?
Á Íslandi eru flokkarnir langt komnir að raða á framboðslista sína og eru því tilbúnir ef efnt verður til kosninga í næsta mánuði, sem enn hefur ekki verið ákveðið. Og fréttamenn hafa aðallega áhuga á einu. Hvað eru margar konur í efstu sætum? Þeir flokkar sem halda ekki prófkjör heldur birta bara fréttatilkynningar, taka svo fram að nákvæmlega jafnmargar konur og karlar sitji á listunum. Í stórum landsbyggðarkjördæmum er svo einnig talið hve margir koma frá hverjum hluta svæðisins.
Aldrei veltir neinn fyrir sér skoðunum einstakra frambjóðenda. Það er fyrst og fremst þetta með kynið. Enginn veltir fyrir sér hvort frambjóðendur í efstu sætum séu frekar til hægri eða vinstri í flokknum. Enginn veltir fyrir sér hvort frambjóðendurnir séu stjórnlyndir eða frjálslyndir, hvort þeir hafi ákveðnar skoðanir á skattamálum eða sé næstum sama um þau, hvort þeir hafi ákveðnar skoðanir á einstaklingsfrelsi eða sé næstum sama um það, hvort þeir vilji fækka boðum og bönnum eða hvort þeir vilji auka þau. Ekkert af slíku er talið upp. En vandlega er sagt frá því að á listanum séu jafn margar konur og karlar, ungir og gamlir.
Ætli franskir feministar kjósi Marine Le Pen af því að hún er kona? Eða getur verið að þeir taki sér frí frá kynjatalningunni rétt á meðan þeir taka Hollande fram yfir hana?
Þegar kjósendur velja fólk til að setja sér og sínum lög og reglur ættu þeir að velta fyrir sér hvað hver og einn frambjóðandi sé líklegur til að gera, nái hann völdum. Kynferði hans á ekki að skipta þar neinu máli.
Hvers vegna ætti róttæk vinstrikona að vilja Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur frekar en Steingrím J. Sigfússon?
Hvers vegna ætti frelsisunnandi hægrikona að vilja Katrínu Jakobsdóttur frekar en Óla Björn Kárason?