Samlandi bjána og lygara týnir texta

Google telur að orðið „bjánar“ komi fyrir 3.990 sinnum í skrifum Jónasar Kristjánssonar fyrrverandi ritstjóra sem hann heldur úti á jonas.is. Skrifin eru að mestu leyti um aðra Íslendinga. En samlandar Jónasar eru ekki aðeins þúsundfaldir bjánar heldur hafa þeir verðskuldað nafnbótina „bófar“ 5.550 sinnum. Á annað þúsund „fífl“ hafa sömuleiðis komið við sögu. „Lygarar“ eru auðvitað fjölmargir. Að ógleymdum „fávitum“ og „heimskingjum“ í hundraðavís.

Á síðasta ári setti Jónas inn á vefinn texta úr ferðabókum sem hann gaf út fyrir margt löngu til að létta íslenskum fábjánum, bófum og lygalaupum lífið á erlendum vettvangi.

Vel gekk að koma á netið leiðbeiningum mínum um borgarrölt. Inn komu Amsterdam, Dublin, Feneyjar, Kaupmannahöfn, London, Madrid, New York, París og Róm. Allt tekið úr ferðabókum mínum, gefnum út árin 1981-1996. Hér á síðunni er það undir flokknum Borgarrölt. Gengið er þannig frá efninu, að göngutúrar rekja sig síðu fyrir síðu í stuttum texta og ótal myndum. Ekki fannst textinn um París, svo að ensk útgáfa er notuð þar.

Það er óheppilegt að textinn úr Parísarbókinni sé týndur því hún er tvímælalaust frægasta bók Jónasar. Þar segir meðal annars frá því að í París sé mikið úrval sérverslana og ein þeirra sé La Maison du Miel á Rue Vignon 24. Í sölubúðinni fáist rúmlega þrjátíu tegundir mjöls sem menn geti kynnt sér yfir búðarborðið, eins og lesandi má ætla að Jónas hafi gert. Fleiri sérverslanir með mjöl séu í París en þessi beri af.

Er kunnara en frá þurfi að segja að það fyrsta sem flestir ferðalangar huga að þegar þeir eru komnir í nýja borg er hvar megi fá gott mjöl. Hver býður hagstæðasta hveitisekkinn, hvar get ég náð mér í gott rúgmjöl fyrir kvöldið, hefur nýjasta tækni við þreskingu skilað sér í betri höfrum til borgarinnar?

Og flestum Íslendingum sem farið hafa að ráðum Jónasar og sótt mjölbúðina góðu heim en komið út með hunangskrukku hefur sjálfsagt ekki þótt minna til um þær kenningar að lygar og fábjánaháttur finnist meðal landsmanna.