Á vef Ríkisskattstjóra er boðið upp á nokkrar reiknivélar. Þar á meðal er reiknivél sem ætlað er að reikna tekjuskatt launþega.
En reiknivélin dugir ekki til þess því hún tekur ekki allar nauðsynlegar forsendur með í reikninginn.
Í mörgum tilvikum hafa tekjur maka nefnilega áhrif á endanlegan tekjuskatt samskattaðra hjóna og sambúðarfólks.
Þetta kemur til af því að á síðasta kjörtímabili voru sett sérstök þrep í kerfið og rétturinn til að vera í lægra skattþrepi var ekki gerður nema að hálfu leyti millifæranlegur milli hjóna eða sambúðarfólks.
Síðan hafa hjón þar sem til dæmis annað hjóna er heima (t.d. vegna veikinda í fjölskyldunni) greitt mikið hærri tekjuskatt en hjón sem eru bæði í vinnu þótt heimilistekjur beggja þessara hjóna séu jafnar. Annað heimilið getur greitt allt að 800 þúsund krónum hærri tekjuskatt á ári en hitt.
Hvernig stjórn jafnaðarmanna komst að þeirri niðurstöðu að það væri jöfnuður í því fólginn að tvö nákvæmlega eins heimili með sömu tekjur greiddu misháan tekjuskatt er ráðgáta en líklega hefur þetta verið liður í „kynjaðri fjárlagagerð.“
Það er auk þess almenn regla að hjón séu samsköttuð og þau bera ábyrgð á skattskuldum hvort annars. Þessi mismunun er því verulegt stílbrot og frávik frá þeirri almennu reglu.
Með lagabreytingum sem gerðar voru um síðustu áramót mun þessi mismunun hverfa úr lögum um næstu áramót ásamt einu af þrepunum – ef ekki verður búið að kjósa vinstri stjórn yfir landið í algerlega ótímabærum þingkosningum.