Ef stjórnmálaflokkur vanrækir pólitíska baráttu nógu lengi getur hann lent í vítahring. Flokkurinn þegir um sín mikilvægustu mál í nokkurn tíma en andstæðingarnir tala samfellt um sín mál á meðan. Næst þegar flokkurinn ætlar að kynna stefnu sína finnst honum að það sé bara enginn að tala um hans hefðbundnu mál. Á þeim sé greinilega enginn áhugi, svo skynsamlegast hljóti að vera að „móta stefnu“ í þeim málum sem allir séu að tala um. Málum andstæðinganna. Það séu þau sem séu á dagskrá núna.
Ef hægri flokkar þegja of lengi um skattamál geta þeir lent í þessari stöðu. Athygli umræðunnar færist frá þeim sem greiða skattana yfir til þeirra sem vilja eyða þeim. Þegar ríki og sveitarfélög taka til sín stóran hluta ráðstöfunartekna hvers manns skerða þau vitaskuld rétt hans til að nýta eigið sjálfsaflafé og eigin eigur eins og hann telur koma sér og sinni fjölskyldu best. Tekjuskattur og útsvar lækka útborguð laun. Fjármagnstekjuskattur á húsaleigutekjur hækkar leiguna sem leigjandinn þarf að borga. Fjármagnstekjuskattur á vexti hækkar kröfu innlánseigenda um vexti sem hækkar þá vexti sem bankinn þarf að krefja lántaka um. Virðisaukaskattur á vörur hækkar vöruverð, fólk getur veitt sé minna, færri vörur seljast, tekjur verslunarinnar minnka, laun afgreiðslufólks líka.
Með þessu er auðvitað ekki sagt að allt það skattfé sem rennur til hins opinbera verði sjálfkrafa að engu. Ríki og sveitarfélög nota peningana í mjög margt eins og augljóst er. En það breytir ekki því að peningarnir eru teknir frá réttmætum eiganda þeirra og notaðir í eitthvað sem aðrir ákveða. Stjórnmálamenn, embættismenn, opinberir starfsmenn ákveða að nota peningana í eitthvað annað en eigandi þeirra hefði gert.
Það sem verið er að minna á er að skattfé er tekið af fólki nauðugu. Það þýðir að eingöngu á að nota það til hluta sem eru svo nauðsynlegir að réttlætanlegt geti verið að svipta annað fólk eignun sínum til að fjármagna það. Ríkisútgjöld og útgjöld sveitarfélaga eiga að vera undantekning en ekki meginregla. Þeir sem krefjast þess að ríki eða sveitarfélag geri meira á einhverju sviði eru í raun að fara fram á að ríkið og sveitarfélagið taki enn meira úr vösum borgaranna og setji í nýja verkefnið.
Ef hægrisinnaðir stjórnmálamenn hætta um tíma að tala um skattamál þá detta þau strax úr opinberri umræðu. Þau verða aldrei rædd í Ríkisútvarpinu út frá sjónarhóli skattgreiðandans. Vinstriflokkarnir munu aldrei tala um skattamál út frá almennu sjónarmiði skattgreiðandans. Ef hægrimenn þegja í nokkur ár um skattamál munu þeir skyndilega standa frammi fyrir því að það sé bara enginn að tala um skattamál. Einhverjir í þeirra hópi munu þá komast að þeirri niðurstöðu að það þýði ekkert að tala um skattamál. Nú séu það ný útgjöld sem þurfi að ræða.
Sem betur fer eru til stjórnmálamenn sem horfa á málin út frá sjónarhóli skattgreiðandans. Í gær var hér fjallað um prýðilega blaðagrein Bryndísar Loftsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, þar sem hún vakti athygli á gríðarlegri skattheimtu á bíleigendur, en Bryndís gefur kost á sér í prófkjöri flokksins í kjördæminu um helgina. Þar er einnig í framboði maður sem lengi hefur barist fyrir málstað skattgreiðenda í ræðu og riti. Óli Björn Kárason hefur árum saman talað fyrir ráðdeild í ríkisrekstri og hófsemi í skattlagningu, ritstýrt blöðum, skrifað bækur og ritað hundruð blaðagreina þar sem hann tekur málstað einstaklingsins gegn hinu opinbera.
Í grein í Morgunblaðinu 26. apríl 2010, þegar stjórn Jóhönnu og Steingríms sat og hækkaði skattana jafnt og þétt, skrifaði Óli Björn:
Það hefur lengi vafist fyrir vinstimönnum að skilja að skattkerfið er sú umgjörð sem stjórnmálamenn sníða viðskipta- og efnahagslífi þjóðarinnar. Hægt er að sníða hana þannig að þjóðfélagið eflist, verði þróttmeira og einstaklingar og fyrirtæki dafni, en það er einnig hægt að gera umgjörðina svo þrönga að smám saman sé efnahagslífið kæft og frumkvæði einstaklinganna drepið. Skattastefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er stefna spennitreyju fyrir allt íslenskt samfélag.
Það er aldrei rangt – hvorki siðferðislega né efnahagslega – að lofa fólki að njóta eigin vinnu og lækka opinberar álögur.