Sigríður Á. Andersen alþingismaður hefur sett upp reiknivélina Vasareikninn á heimasíðu sinni sem sýnir hin ofboðslegu jaðaráhrif skatt- og bótakerfisins.
Þar getur hver sem er sett inn sínar forsendur og séð hver ávinningurinn er af því að bæta við sig vinnu. Hvað hafa menn raunverulega upp úr því að taka að sér aukaverk á laugardegi, sinna einu biluðu loftneti að kveldi, redda frosinni tölvu í nýsköpunarfyrirtæki, klippa einn haus í viðbót, skjótast austur fyrir fjall til að bjarga sumarbústaðaeiganda frostsprungna lögn?
Dæmið sem Sigríður sýnir er ekki bara til marks um að skattar eru alltof margir og háir heldur að utan í skattkerfið hafa umhugsunarlaust verið hengd bótakerfi sem refsa mönnum og letja til hvers kyns framtakssemi.
Og svo eru það auðvitað öll skatthlutföllin sem vinstri stjórnin hækkaði og hækkaði og hækkaði. Það á enn eftir að vinda ofan af ýmsu í þeim efnum þótt flest hlutföllin hafi lækkað á þessu kjörtímabili.
Oft á tíðum er niðurstaðan því nöturleg. Í sumum tilvikum standa aðeins eftir um 3.000 krónur af 10.000.
Hvaða áhrif hefur þetta á frjálst framtak í landinu?