Minnist þess einhver að hafa fengið kynningu á stærstu málum vinstri stjórnarinnar?
Það var enginn kynningafundur á Icesave samningnum, þvert á móti átti að lauma honum í gegnum þingið. Það var varla að þingmenn fengju kynningu á honum. Tveimur dögum áður en samningurinn lá fyrir sagði Steingrímur J. Sigfússon að aðeins væri um að ræða „könnunarþreifingar.“
Á sama hátt var endurreist bankakerfið fært yfir til erlendra kröfuhafa án þess að skattgreiðendum eða þinginu væri gerð góð grein fyrir því. Um þetta mál er enn verið að þrátta, sjálfsagt að einhverju leyti vegna þess að ekki var reynt að útskýra það fyrir fólki. Það var ekkert kynningaefni á netinu eins og um aðgerðir núverandi ríkisstjórnar.
Að ógleymdri ákvörðun að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Um það má bara finna eina tilkynningu og upptöku af blaðamannafundi í Stokkhólmi. Málið var aldrei kynnt almenningi.
Er því ekki holur hljómur í því þegar stjórnarandstaðan og fjölmiðlar henni handgengnir gagnrýna núverandi ríkisstjórn að þessu leyti? Hvaða skoðun sem menn hafa á „leiðréttingunni“, losun fjármagnshafta eða átakinu „Fyrsta íbúð“ þá er að minnsta kosti ljóst að þetta var kynnt rækilega fyrir almenningi. Bæði með kynningafundum í Hörpunni, en einnig með því að gefa fólki kost á að fylgjast með beinum útsendingum á netinu. Síðan hefur allskonar ítarefni legið fyrir á vefjum viðkomandi ráðuneyta. Upplýsingarnar eru að minnsta kosti þarna, það er ekki hægt að kvarta yfir því.
Það skýtur því skökku við þegar stjórnarandstaðan gagnrýnir kynningar núverandi ríkisstjórnar. Þannig hefur Steingrímur J. Sigfússon talað um ,,áróðurssölumessu“ í Hörpu þegar hann var að tala um kynningu á leiðréttingunni. Einnig kann mönnum að þykja áhugavert að lesa þetta eftir Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans í leiðara 19. ágúst:
Enn ein glanskynning á aðgerð ríkisstjórnarinnar var haldin í Hörpu á mánudag. Áður höfum við verið leidd í gegnum nokkrar slíkar kynningar um „Leiðréttinguna“ og áætlun stjórnvalda um losun hafta. Þær kynningar hafa átt það sameiginlegt að framsetning upplýsinga hefur í besta falli verið villandi og mjög frjálslega hefur verið farið með túlkun talna.
Nú er það svo að þessi sami leiðarahöfundur kom einmitt að kynningarmálum síðustu ríkisstjórnar. Hver man ekki eftir hinum velheppnaða leka þegar Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, lak upplýsingum til Þórðar Snæs, þegar hann var blaðamaður Viðskiptablaðsins? Lekinn var að því er virðist til að afvegaleiða íslenska fjölmiðla áður en fréttamannafundur forsætis- og fjármálaráðherra hófst í stjórnarráðinu.
Í tölvupósti frá Elíasi Jóni segir hann Þórð Snæ endilega vilja fá „að skúbba einhverju fyrir fundinn og sé ég ákveðið tækifæri í því að láta það eftir honum.“ Þá segist hann sjá hag í því að geta „sett fókusinn á eitthvað eitt atriði sem við viljum að fjölmiðlar séu fókuseraðir á þegar þeir mæta á fundinn.“
Póstinn byrjar Elías á hinu merka nýyrði: „Tussufínt“ – og er þar augljóslega verið að vísa til þess að hafa fengið heimild til að leka upplýsingum í Viðskiptablaðið. Síðan segir hann:
Það er spurning hvernig við prjónum þetta. Doddi [Þórður Snær, blaðamaður Viðskiptablaðsins, innsk.] vill ólmur fá að skúbba einhverju fyrir fundinn og sé ég ákveðið tækifæri í því að láta það eftir honum. Þannig getum við sett fókusinn á eitthvað eitt atriði sem við viljum að fjölmiðlar séu fókuseraðir á þegar þeir mæta á fundinn.
Af því sést að Þórður Snær var hluti af kynningastarfi síðustu ríkisstjórnar. Er það ástæðan fyrir því að hann er ósáttur við kynningar þar sem allir sitja við sama borð?