Þeir eru alltaf sömu óþverrarnir, hægrimennirnir í Bandaríkjunum. Enda eru þeir alræmdir fyrir að leggjast lágt til að koma höggi á andstæðinginn. Um alla Evrópu vita menn hvernig þeir haga sér.
Komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum eru skýrt dæmi um þetta. Þó Hillary Clinton og demókratar reyni að halda baráttunni á háu plani, eins og þau gera alltaf, þá breytir það ekki ömurlegum aðferðum bandarískra hægrimanna.
Nú reyna þeir að lítillækka keppinautinn, því þeir hafa engin efnisleg rök gegn henni. Þeir hafa þess vegna sett upp stórar styttur í helstu stórborgum Bandaríkjanna, styttur sem sýna Hillary Clinton kviknakta. Þetta segja þeir gert til að sýna að hún hafi ekkert fram að færa, en er í raun gert til að gera lítið úr henni persónulega og niðurlægja hana.
Enda er mikil reiði um allan hinn vestræna heim vegna þessa. Kvennahreyfingar eru sérstaklega reiðar enda finnst þeim þetta sýna hvernig feðraveldið hlutgerir konur. Háskólamenn senda frá sér ályktanir um að nú hafi verið farið yfir strikið. Óhlutdræg stórblöð fordæma þetta harðlega og hvetja kjósendur til að sýna vanþóknun sína á þessum aðferðum og kjósa Hillary, nema stytturnar verði teknar niður.
Svona er þetta.
Og þó. Þetta er reyndar ekki nákvæmlega svona.
Stytturnar eru af hinum undarlega frambjóðanda repúblikana.
Og það eru ekki repúblikanar sem hafa sett þær upp.
Og enginn gagnrýnir þessa baráttuaðferð.
En að öðru leyti er þetta nokkuð nákvæmt.
Það er samt ekki víst að fyrstu Hillary-styttunni verði tekið vel. Einhvers staðar eru mörk.