Að kvöldi 20. ágúst fyrir 25 árum lýstu eistneskir stjórnmálamenn yfir sjálfstæði landsins þrátt fyrir að á sama tíma færu sovéskir skriðdrekar um sveitir landsins til að kveða niður sjálfstæðistilburði og sovéskir hermenn væru að hertaka sjónvarpsturninn í Tallinn til að skera á samskipti.
Það vildi Eistum til happs að Boris Yeltsin náði völdum í Moskvu og Sovétríkin hófu að liðast í sundur.
Tveimur dögum síðar eða 22. ágúst varð Ísland fyrsta landið til að viðurkenna endurfengið sjálfstæði Eistalands. Sovétríkin viðurkenndu svo sjálfstæði landsins 6. september.
Þessara tímamóta verður minnst hér á landi með fundahöldum í lok vikunnar.
Almenna bókafélagið býður ásamt ræðismönnum Eystrasaltsríkjanna þriggja á Íslandi til samkomu og útgáfuhófs föstudaginn 26. ágúst 2016 kl. 17–19 í Litlatorgi í Háskóla Íslands. Í útgáfuhófinu flytja Davíð Oddsson ritstjóri og Tunne Kelam, þingmaður á Evrópuþinginu, stutt ávörp. Davíð mun segja söguna að baki viðurkenningarinnar á Eystrasaltsríkjunum, en líka frá stuðningi Íslands á bak við tjöldin innan Atlantshafsbandalagsins við aðild Eystrasaltsríkjanna að bandalaginu, á meðan hann var forsætisráðherra 1991–2004. Tunne Kelam er sagnfræðingur að mennt og missti skjalavarðarstöðu sína á hernámstímanum í Eistlandi vegna andófs við kommúnistastjórnina þar. Var hann settur í erfiðisvinnu að næturlagi á ríkisreknu hænsnabúi. Hann gerðist einn af leiðtogum sjálfstæðisbaráttu Eistlendinga og var forseti þjóðþings, sem kosið var til 1990 án fulltingis hernámsyfirvaldanna og eistneskra erindreka þeirra.
Og ekki nóg með það því einnig koma út í nýrri útgáfu tvær bækur um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, sem komu út á íslensku á sínum tíma: Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum (Baltic Eclipse) eftir Ants Oras frá 1955 í þýðingu séra Sigurðar Einarssonar í Holti og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds (Estland: En studie i imperialism) eftir Andres Küng frá 1973 í þýðingu Davíðs Oddssonar, þá laganema.
Á vef RNH segir um útgáfuna:
Tilefni endurútgáfunnar er, að fyrir réttum aldarfjórðungi, 26. ágúst 1991, endurnýjaði Ísland fyrst ríkja viðurkenningu sína á Eystrasaltslöndunum við hátíðlega athöfn í Höfða að viðstöddum utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja og Íslands, Lennart Meri frá Eistlandi, Janis Jürkans frá Lettlandi og Saudargas Algirdas frá Litáen og Jóni Baldvini Hannibalssyni, sem hafði ásamt Davíð Oddsyni forsætisráðherra beitt sér mjög í málinu. Þá um kvöldið sátu utanríkisráðherrarnir boð Davíðs í Ráðherrabústaðnum. Fyrirhuguð er einnig ráðstefna á vegum utanríkisráðuneytisins í september til að minnast þessara tímamóta, og styður RNH það framtak eftir föngum. Eystrasaltsríkin voru öll hernumin af Ráðstjórnarríkjunum 1940 og gerð að ráðstjórnarlýðveldum, en endurheimtu sjálfstæði sitt 1991, eftir að valdarán harðlínukommúnista í Rússlandi misheppnaðist og Ráðstjórnarríkin hrundu.