Stykkishólmur með rétt svar

Stykkishólmur. Eftir lækkun útsvars hefur útsvarsgreiðendum fjölgað. Mynd: Yadid Levy / Norden.org.

Íbúum í Stykkishólmi hefur fjölgað nokkuð undanfarið þrátt fyrir húsnæðisskort. Þetta kom fram í frétt Ríkisútvarpsins í gær.

Um fimmtungur húsa í Stykkishólmi eru svonefnd frístundahús, fólk hefur ekki í þeim fasta búsetu.

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri ritaði eigendum þessara húsa bréf fyrir tæpu ári og hvatti þá til að flytja lögheimili sitt í bæinn til að tryggja honum útsvarstekjur. Til að gera þetta girnilegri kost lækkaði bæjarstjórinn útsvarið í 14,37% sem gerir það lægra en til að mynda í öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu nema Garðabæ og Seltjarnarnesi þar sem það er 13,70%. Að vísu hækkaði Stykkishólmsbær fasteignagjöldin á móti sem var ekki jafn glæsilegt en þar sem þau eru ekki háð lögheimili manna er erfitt að víkja sér undan þeim vilji menn á annað borð eiga hús á ákveðnum stað.

Þetta virðist hafa borið árangur hjá Sturlu og félögum hans í bæjarstjórninni. Útsvarsgreiðendum fjölgaði.

Tilraunir af þessu tagi, að lækka útsvarið og fleiri gjöld, mættu vera fleiri um land allt. Skattasamkeppni af þessu tagi bætir ekki aðeins hag íbúanna heldur er hún aðhald fyrir sveitarstjórnarmenn. Þegar skattar lækka handan bæjarmarkanna er erfiðara en ella að réttlæta það fyrir íbúum að hækka þurfi skattana. Og þá þurfa menn einfaldlega að spara og hagræða og jafnvel leggja af eitthvað af þeirri „þjónustu“ sem sveitarfélögin hafa boðið án þess að nokkur hafi beðið um hana.