Það getur ekki staðist að umboð 63 lýðræðislega kjörinna þingmanna verði strikað út vegna afglapa eins þeirra.
Enginn hinna 62 þingmannanna virðist hafa haft hugmynd um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra landsins, ætti sameiginlega hagsmuni með kröfuhöfum föllnu bankanna. Hagsmunirnir voru vandlega faldir í félagi á Tortóla. Það hvarflaði ekki að nokkrum manni að forsætisráðherrann væri á kafi í málum sem vörðuðu mörg hundruð milljóna króna hagsmuni hans sjálfs. Enginn gat ímyndað sér að stjórnmálamaður sem lagði til að íslenska ríkið hæfi kaup á eigum kröfuhafanna væri sjálfur einn af kröfuhöfunum.
Sigmundur Davíð blekkti hina þingmennina 62, þeir eru fórnarlömb en ekki gerendur í málinu.
Þingflokkur Framsóknarflokksins tók á endanum rösklega á þessum trúnaðarbresti og valdi nýjan forsætisráðherra úr sínum hópi en þó ekki fyrr en Sigmundur Davíð ætlaði að reka þingflokkinn og þingið allt heim með þingrofi. Hann ætlaði að senda allt þingið heim af því hann sjálfur naut ekki trausts í eigin þingflokki! Það er athyglisvert að þegar tilraun Sigmundar Davíðs til þingrofs fór út um þúfur á Bessastöðum tóku vinstriflokkarnir tillöguna upp á sína arma og lögðu hana fram á alþingi þar sem hún var kolfelld.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigmundur reynir að koma ótímabærum kosningum til leiðar í félagi við vinstri flokkana. Hann var sem formaður Framsóknarflokksins höfuðpaurinn í því í janúar 2009 að koma Jóhönnu og Steingrími til valda og að boðað var til ótímabærra þingkosninga í ringulreið bankahrunsins.
Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins lýsti þessu verki svo:
Með þingrofi og kosningum nú í haust væri verið að gera málum fyrrum forsætisráðherra og honum sjálfum alveg undarlega hátt undir höfði. Snýst allt um hann? Á að strika lýðræðislegar niðurstöður þingkosninganna 2013 út vegna einhverra furðumála Sigmundar Davíðs?
Ögmundur Jónasson er einn þeirra þingmanna sem lýðræðislegt umboð væri tekið af ef kosningar fara fram nú í haust því það er alveg ótvírætt í stjórnarskrá að þing er kosið til fjögurra ára.
Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.
Ögmundur skrifaði greinina „Alþingi á að ráða ef stytta á kjörtímabil“ í sunnudagsblað Morgunblaðsins nú um helgina. Þar segir meðal annars:
Hér á landi er þingrofsrétturinn í reynd hjá forsætisráðherra en almenna reglan er sú að kjörtímabilin renni sitt skeið og komi þá til þingkosninga. Duttlungar og pólitískir stundarhagsmunir ráði þar engu um.
Frá þessu eru að sönnu undantekningar. Nýlegt dæmi höfum við frá árinu 2009 þegar í janúarlok slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og var í kjölfarið mynduð minnihlutastjórn Samfylkingar og VG með stuðningi Framsóknar. Um vorið fóru síðan fram þingkosningar allt vel innan kjörtímabils. Um þetta hefði í sann þurft að greiða atkvæði.
Ögmundur bætir svo við áhugaverðri tillögu:
Sjálfum finnst mér það vera augljóst og i reynd ósköp einfalt. Kannaður verði vilji þingsins til að stytta kjörtímabilið. Um þetta greiddum við atkvæði í vor og var tillagan felld – illu heilli. Um þetta ætti enn að greiða atkvæði og væri ekki slæmt ráð að hafa atkvæðagreiðsluna leynilega til að losa menn undan hugsanlegum þrýstingi til fylgispektar við flokkslínur. Í þessu máli – sem reyndar öðrum – á hver maður að vera frjáls sem fuglinn fljúgandi. En þannig er það því miður ekki alltaf í reynd. Það kennir sagan.
Einhverjir telja að einhverjir hafi lofað haustkosningum, aðrir telja það svik ef stjórnin stendur ekki við það að sitja út kjörtímabilið.
Heggur ekki tillaga Ögmundar á hnútinn?