Hvort er mikilvægara: Haustkosningar eða skattalækkanir?

Ætla stjórnarflokkarnir að renna af hólmi áður en þeir hafa tryggt verulega lækkun tekjuskatts einstaklinga?

Undanfarið hefur verið mikill uppgangur í íslensku efnahagslífi og hagur þorra fólks batnað mjög mikið. Skoðanakannanir benda hins vegar til þess að þetta hafi engin áhrif á þær áætlanir mikils meirihluta kjósenda að kjósa stjórnarandstöðuna til valda um leið og tækifæri gefst. Það tækifæri mun svo gefast fyrr en stjórnarskráin gerir ráð fyrir, ef gengið verður á bak þeirra fyrirheita að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið.

Síðasta árið hafa laun allra hópa hækkað verulega og langt umfram verðbólgu. Það þýðir að kaupmáttur hefur vaxið verulega. En það þýðir einnig að skatttekjur ríkis og sveitarfélaga hafa vaxið mjög verulega, bæði að krónum og verðmæti. Í Morgunblaðinu í fyrradag kemur fram að tekjuskattur einstaklinga hafi milli ára hækkað um 14 milljarða króna, eða um 21%.

Við þessar aðstæður er augljóst að auðvelt er að lækka tekjuskattshlutfallið verulega. Nú er ekki hægt að blekkja neinn með því að segja að ekki sé „svigrúm“ til þess að lækka skattinn og sama má segja um útsvar sveitarfélaga. Ríki og sveitarfélög fá nú mun meira fé í kassann vegna útsvars og tekjuskatts og þá hlýtur að vera hægt að lækka prósenturnar eitthvað. Verði það ekki gert, er skýringin einfaldlega sú að þingmenn og sveitarstjórnarmenn vilja ekki lækka álögur á vinnandi fólk. Því verður ekki lengur trúað að það sé „ekki hægt“ að lækka gjöldin.

Sjálfstæðisflokkurinn er enn í ríkisstjórn. Stjórnin hefur traustan þingmeirihluta. Kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en næsta vor. Enn á eftir að samþykkja fjárlög næsta árs. Það er hreinlega skylda núverandi stjórnarþingmanna að sjá til þess að skattar á landsmenn verði lækkaðir um næstu áramót. Allir vita að vinstriflokkarnir vilja ekki lækka skatta á fólk. Ef núverandi þingmeirihluti ákveður að rjúfa þingið, án þess að lögfesta áður umtalsverðar skattalækkanir, hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins kastað frá sér ótrúlegu tækifæri til að hrinda helsta stefnumáli flokksins í framkvæmd.

Hvernig gætu stjórnarþingmenn réttlætt það að rjúfa þing, frekar en að samþykkja fjárlög með umtalsverðum skattalækkunum á vinnandi fólk?

Ætla stjórnarþingmenn bara að sitja og horfa á opinber gjöld aukast um milljarðatugi, en lækka enga skatta heldur rjúfa bara þingið?