Framsókn dælir út verðtryggðum íbúðalánum og búvörusamningum

Íbúðalánasjóður Framsóknaflokksins er einn af fáum lánveitendum á landinu sem lánar eingöngu verðtryggt til íbúðarkaupa.

Helsti samfélagsbanki landsins er Íbúðalánasjóður. Samfélagið hefur þurft að leggja bankanum til tugi milljarða króna á undanförnum árum. Íbúðalánasjóður heyrir undir ráðuneyti Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins.

Þessi Íbúðalánasjóður Framsóknarflokksins býður aðeins verðtryggð lán. Þau geta verið til allt að 35 ára. Framsókn býður fólki verðtryggingu til ársins 2051. Geri aðrir betur.

Íbúðalánasjóður er einn af fáum lánveitendum á landinu og þótt víðar væri leitað sem lánar eingöngu verðtryggt til íbúðarkaupa. Hjá flestum öðrum lánveitendum en Íbúðalánasjóði Framsóknarflokksins geta menn valið um verðtryggt eða óverðtryggt eða blöndu þessara kosta.

Í nýjum búvörusamningum landbúnaðarráðherra við bændasamtökin eru ákvæði um að greiðslur ríkisins vegna nautakjöts, lambakjöt, svína, tómata og  klettasalats skuli vera verðtryggðar. Eða eins og segir í öllum fjórum samningunum:

Ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs (meðaltal ársins) verður önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu, skal mismunurinn leiðréttur í fjárlögum næsta árs.

Þessir samningar munu standa í 10 ár ef lagabreytingar sem þeim fylgja fara í gegnum alþingi. Framsóknarflokkurinn er mjög áfram um það. Hann vill verðtryggja ríkisstyrki til landbúnaðar í áratug.

Það er lítið að marka tal stjórnmálaflokks um „afnám verðtryggingar“ þegar ráðherrar hans dæla á sama tíma út verðtryggðum skuldbindingum ríkissjóðs við bændur og búalið.