„Samningar“ sem einstakir ráðherrar gera við hagsmunahópa um annarra manna peninga eru leiðinlegur siður í íslenskum stjórnmálum. Nýlegur búvörusamningur til 10 ára er „gott“ dæmi um þetta. „Samningurinn“ um útrásarbautann Hörpuna til 35 ára annað.
Nýtt dæmi um þetta mátti svo sjá í gær þar sem menntamálaráðherra og fleiri ráðherrar skrifuðu undir „samning“ við íþróttahreyfinguna um stigmögnun á framlögum skattgreiðenda næstu þrjú árin til „afreksíþrótta.“ Árleg framlög voru 25 milljónir króna fyrir nokkrum árum en verða orðin 400 milljónir árið 2019 ef „samningurinn“ gengur eftir. Það væri hækkun um 1500%.
En menntamálaráðherrann hefur ekkert fjárveitingarvald. Hann gæti allt eins skrifað undir samning um að framlögin frá skattgreiðendum eigi að hækka í 400 milljarða á ári. Hann hefði allt eins getað sent Andrés önd til að skrifa undir þessa innistæðulausu ávísun.
Á endanum er það nefnilega alþingi sem ákveður hvert framlagið verður. Ef þingið ákveður við fjárlagagerðina í haust að framlögin til afreksíþrótta verði núll þá verða þau núll sama hvað segir í þessum samningi sem skrifað var undir í fjölmiðlasirkus í gær.
Hvorki menntamálaráðherrann, fjármálaráðherra né forsætisráðherra hafa heimild til að skuldbinda ríkið um fjárútlát af þessu tagi.
Hins vegar er það auðvitað tilgangurinn með „samningum“ af þessu tagi að stilla fjárveitingarvaldinu, alþingi, upp við vegg. Þetta er nú bara í samræmi við samninginn! Ekki vilja stjórnarþingmenn að láta ráðherrann líta illa út? Og ef minnst er á að þingið ætli ekki að fara að „samningnum“ sem það átti enga aðkomu að birtast talsmenn hagsmunahópsins reiðir í öllum fréttatímum og tala um vonbrigði og svik.
Það er svo sérstakt ábyrgðarleysi þegar „samningar“ af þessu tagi eru gerðir skömmu fyrir kosningar og nær allar „skuldbindingarnar“ falla á næsta eða næstu kjörtímabil.
Alþingi þarf auðvitað að kenna ráðherrum í eitt skipti fyrir öll að svona framkoma við fjárveitingarvaldið og skattgreiðendur verði ekki liðin. Eina markvissa leiðin til þess er að hafna öllum útgjöldum sem reynt er að efna til með þessum hætti og láta ráðherrana segja það upphátt við hagsmunahópana: Ja við höfðum nákvæmlega enga heimild til að lofa þessum útgjöldum og ykkur var það jafn ljóst og okkur.