Ég er feginn því að vefritið Andríki sé til vegna þess að í því (eða á því) leggja skríbentar töluvert á sig við að hampa mikilvægi og fegurð frelsisins í mannlegu samfélagi. Hvort tveggja er óumdeilanlegt. Það er hins vegar umdeilanlegt hversu takmarkalaust frelsið eigi að vera og þegar að því kemur er ég oft á öndverðum meiði við þá sem skrifa í Andríki. Ég er samt feginn því að skoðanir þeirra eigi sér rödd þótt hún sé ekki samhljóma minni vegna þess að rétturinn til frelsis á oft undir högg að sækja í okkar samfélagi þegar hann rekst á annan rétt sem meirihlutinn telur mikilvægari. Ég verð hins vegar alltaf jafnhissa þegar hugsjónamenn frjálshyggjunnar taka þá ákvörðun að þegar einhver setur fram röksemdir fyrir því að takmarka frelsi á einhverju sviði sé best að taka á því með því að hjóla í hann frekar en rösemdirnar. Hugmyndin er að öllum líkindum sú að sýna fram á að maðurinn sem vill takmarka frelsið sé vondur og þar af leiðandi hljóti röksemdir hans að vera vondar, hverjar svo sem þær séu.
Ég lenti í þessu í gær þegar það birtist eftir mig grein í Fréttablaðinu þar sem ég setti fram röksemdir fyrir því að útlendingaspítali í Mosfellsbæ yrði ekki góður fyrir íslenskt samfélag. Viðbrögð Andríkis voru þau að ég væri óhæfur til þess að tjá skoðanir vegna þess að:
1. Það hefðu verið sett lög sem veittu Ríkinu heimild til þess að ábyrgjast skuldabréf fyrir deCODE genetics. Þótt ég hefði staðið fyrir þessum lögum er býsna löng og skrikkjótt leið frá því og að þeirri skoðun að þess vegna séu röksemdir sem ég set fram máli mínu til stuðnings slæmar og ekki þess virði að svara þeim. Staðreyndin er hins vegar sú að hvorki ég né fyrirtækið sem ég vinn fyrir berum hina minnstu ábyrgð á lögunum. Við áttum ekki hugmyndina að þeim, við skrifuðum ekki frumvarpið, við lögðum það ekki fram og við greiddum ekki um það atkvæði. Það er Alþingi Íslendinga sem ber ábyrgð á lögunum en ef Andríkismenn vilja kalla einstakling til ábyrgðar verður það annað hvort að vera Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra eða Geir Haarde þáverandi fjármálaráðherra. Lagaheimildin var aldrei nýtt og félagið aflaði fjár án hjálpar frá ríkinu og þess ber að geta að það hefur aldrei notið hinnar minnstu aðstoðar frá hinu opinbera og aldrei farið fram á fé úr ríkissjóði.
2. Íslenskir ríkisbankar hefðu skorið erlenda stofnfjárfesta í deCODE niður úr snörunni. Jafnvel ef það reyndist rétt að bankarnir hefðu bjargað erlendu fjárfestunum væri það skrýtin mótbára við röksemdum mínum gegn útlendingaspítalanum. Staðreyndin hér er sú að það var krafa í íslensku samfélagi að erlendu fjárfestarnir deildu eignarhaldinu með landsmönnum þótt það megi halda því fram að hún hafi verið óskynsamleg. Það var settur þrýstingur á fjárfestana og þeir féllust á að selja hluta af sínu og þeim leið ekki eins og það væri verið að bjarga þeim heldur að þeir væru að hlúa að tengslum fyrirtækisins við samfélagið. Þótt kaup bankanna á þessum hlutabréfum hafi leitt til þess að einhver gjaldeyrir færi úr landi er fyrirtækið búið að flytja nettó meira en 175 milljarða króna í erlendum gjaldeyri til landsins á síðustu tuttugu árum.
3. deCODE genetics Inc hafi óskað eftir gjaldþrotaskiptum í Bandaríkjunum árið 2009. Og þess vegna er auðvitað ekkert að marka það sem ég segi um útlendingaspítalann? Það er frjálshyggjumönnum Andríkis auðsætt. Það er rétt að deCODE fór í gjaldþrotaskipti árið 2009 um svipað leyti og flest fyrirtæki á Íslandi. Það sem fór endanlega með deCODE var að bandaríski bankinn Lehman Brothers fór á hausinn og tók með sér tveggja ára rekstrarfé fyrirtækisins. Það skuldaði mikið fé í Bandaríkjunum en varla krónu á Íslandi. Fyrirtækið var endurreist og eftir sem áður hefur það haldið áfram að leiða heiminn á sviði mannerfðafræði og er ábyrgt fyrir því að bera orðstý Íslands í vísindum víðar en áður hefur þekkst í sögu þess.
En nú er nóg sagt. Ég vil þó enda á að benda hugsjónamönnunum sem skrifa fyrir Andríki á þá staðreynd að það er ekkert í hugmyndafræði frjálshyggjunar sem ætti að hvetja þá til þess að tjá sig um menn þegar umræðan er um málefni þótt tjáningarfrelsið verji rétt þeirra til þess að gera það. Það ver meira að segja rétt þeirra til þess að líta út eins og kjánar fyrir vikið þótt það fari aldrei vel innblásnum hugsjónamönnum.
Kári Stefánsson.