Ef þér ofbýður MS hvað segirðu þá um MMS?

MMS er ein stærsta bókaútgáfa landsins.

Almenna bókafélagið og Sigríður Á. Andersen alþingismaður hlutu Frelsisverðlaun Sambands ungra sjálfstæðismanna sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Verðlaunin voru afhent á fimmtudaginn.

AB hlaut verðlaunin í flokki félagasamtaka en útgáfufélagið hefur undanfarin ár gefið út fjölda bóka er varða hugmyndabaráttuna miklu.

Sigríður hlaut verðlaunin í einstaklingsflokki fyrir að hafa haft góð áhrif á opinbera umræðu í þágu frelsisins og störf sín á alþingi.

Í ávarpi við afhendingu verðlaunanna fór Jónas Sigurgeirsson framkvæmdastjóri AB yfir umfangsmikla útgáfustarfsemi ríkisins á bókum sem nú fer fram undir merkjum Menntamálastofnunar (MMS). Ríkið einokar útgáfu námsbóka og virðist stolt af því er marka má nýlegt kynningarmyndband Menntamálastofnunar.


Námsbækur eru til að mynda um fjórðungur bókamarkaðarins á Norðurlöndum og því myndi það vera veruleg búbót fyrir almenna bókaútgáfu í landinu ef ríkið héldi sig til hlés í þessum efnum.

Ekki virðast heldur mikil fordæmi fyrir því frá helstu nágrannalöndum Íslands að ríkið leggi námsbókaútgáfu undir sig og eftir því sem næst verður komist er Ísland eina Evrópulandið þar sem ríkisútgáfa námsbóka er stunduð, að minnsta kosti að slíku kappi.

Þessu til viðbótar rekur ríkið einnig Hljóðbókasafn Íslands sem tekur bækur endurgjaldslaust frá útgefendum (höfundur fær 16 þúsund króna eingreiðslu), lætur lesa þær inn á hljóðskrá sem er svo dreift endurgjaldslaust áfram, hvort sem er til skokkara, bílstjóra eða næturvarða. Nýjasta útgáfa hljóðbókasafnsins er Tekjublað Frjálsrar verslunar! Ríkið lætur sér ekki nægja að dreifa persónugreinanlegum upplýsingum um fólk heldur eru þær lesnar inn á hljóðskrár eftir að misvandaðir blaðaútgefndur hafa sett safaríkustu bitana í blöðin sín.