Samningur um útgjöld óviðkomandi

Samningur er fallegt og gott orð.

Venjulega gera tveir eða fleiri með sér samning um að allir verði betur settir en áður. Brúðhjónin semja við bakarann um tertu gegn greiðslu. Bakarinn vill frekar fá greiðsluna en að eta tertuna sjálfur og hin verðandi hjón meta ánægjuna í veislunni umfram fjárhæðina.

En svo er það búvörusamningurinn.

Hann er ekki aðeins um að báðir samningsaðilar, ríkissjóður og bændur, tapi heldur eru vammlausir neytendur einnig fórnarlömb.

Það er svo einhver misskilningur hjá formanni bændasamtakanna að ef alþingi skrifar ekki upp á búvörusamninginn geti samtökin sett ríkisstjórn og þingi einhverja afarkosti. Í þessu tilviki er nefnilega ekkert sjálfgefið að menn „semji“ um að færa þessa 13 þúsund milljónir á hverju á ári næstu 10 árin frá skattgreiðendum til bænda. Bændur eru ekki ríkisstarfsmenn og því ekki á ábyrgð ríkisins.

Vefþjóðviljinn 194. tbl. 20. árg.