Rétt rúmu ári eftir að David Cameron vann sinn mikla og óvænta kosningasigur hrökklast hann úr embætti forsætisráðherra Bretlands. Og það án þess að hafa gert neitt af sér, hvorki raunverulegt né „ímyndarlegt“. Hann var hvorki staðinn að stórglæp né gripinn hjá rangri konu, hann notaði ekki einu sinni „rangt“ orðalag um nokkurn hlut, en samt hverfur hann frá völdum og Bretar fá forsætisráðherra sem enginn bjóst við, þegar kosið var í fyrra.
Cameron lagði það í dóm kjósenda hvort Bretland ætti að vera áfram í Evrópusambandinu. Já eða nei? spurði hann kjósendur. Og fékk skýrt svar, en ekki það sem hann vildi fá.
Það er svo til marks um hversu stjórnmálaþróun getur verið undarleg, að í stað Camerons kemur nýr forsætisráðherra sem einnig sagðist vilja halda Bretlandi í Evrópusambandinu. Þeir sem töldu að „Remain“-maðurinn Cameron yrði auðvitað að víkja sjá nú ekkert að því að „Remain“-konan May taki við.
Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa verið í tísku undanfarið. Stjórnmálamenn keppast um að lofa þær og vilja að sem allra auðveldast verði að knýja þær fram um sem flest mál.
Fjölmargir Bretar og ekki síður fjölmargir utan Bretlands, eru hinir reiðustu yfir niðurstöðum kosningarinnar í Bretlandi á dögunum. En hverjum eiga þeir að vera reiðir? Jú jú, þeir beina auðvitað einhverjum skömmum að Boris Johnson, Michael Gove og að sjálfsögðu Nigel Farage, en þessir þrír menn höfðu víst ekki nema þrjú atkvæði samtals. Það voru ekki þeir sem ákváðu að Bretland gengi úr Evrópusambandinu.
Hver ákvað það þá?
Fyrsta svarið er auðvitað að „þjóðin“ hafi gert það. En hún er eiginlega saklaus líka. Rúmlega 33 milljónir Breta mættu á kjörstað, rúmlega 17 milljónir sögðu út en 16 milljónir inn. Munurinn var meira en milljón atkvæði, en „þjóðin“ hefur enga eina skoðun á málinu frekar en öðrum málum.
„Þjóðin“ tekur aldrei neina afstöðu. Það er ekki hægt að leggja nein mál „í dóm þjóðarinnar“. Það er ekki þannig að breska þjóðin hafi einn daginn viljað vera í Evrópusambandinu en svo rúmum fjörutíu árum síðar hafi þjóðin skipt um skoðun og vilji nú út.
Það er heldur ekki þannig að í þingkosningum ákveði „þjóðin“ einhverja skiptingu þingsæta. „Þjóðin“ sendir ekki frá sér tilkynningu um að hún hafi ákveðið að næst skuli einn flokkur fá tíu þingmenn en einhver annar átta. Þjóðin hvorki velur né hafnar. Kjósendur skiptast einfaldlega einhvern veginn, á tilteknum kjördegi.
Þjóðin hefur ekki vilja, rétt eins og hún á ekki eignir.
„Þjóðin“ er ábyrgðarlaus. Og ekki aðeins er „þjóðin“ ábyrgðarlaus. Þeir sem kjósa í „þjóðaratkvæðagreiðslu“ eru það líka. Þeir þurfa ekki að standa neinum skil á því hvernig þeir greiða atkvæði eða hvaða röksemdir hafa þar ráðið.
Vefþjóðviljinn 193. tbl. 20. árg.