Fimmtudagur 2. júní 2016

Vefþjóðviljinn 155. tbl. 20. árg.

Nýtt frumvarp um námslán og námsstyrki felur í sér milljarða áhættu fyrir skattgreiðendur.

Nýtt frumvarp um námslán og námsstyrki felur í sér milljarða áhættu fyrir skattgreiðendur.

Fram er komið frumvarp til laga um námslán og námsstyrki.

Dagana langa er rætt um áhrif frumvarpsins á námsmenn, einhvers staðar var sagt að 85% þeirra myndu hagnast á frumvarpinu yrði það að lögum. Og auðvitað skiptir þetta mál námsmenn miklu máli.

En á hinum endanum eru skattgreiðendur, fólk af holdi og blóði, rétt eins og námsmenn.

Þeirra hlut þarf einnig að ræða. Hve stór hluti skattgreiðenda tapar á frumvarpinu? Er það kannski nálægt 100%?

Í gögnum með frumvarpinu segir að „miðað við að 60% námsmanna sem eru ekki á lánum í dag nýti sér styrk“ muni kostnaðarauki skattgreiðenda frá núverandi námslánakerfi verða 2,4 milljarðar á ári.

Ef.

Ef rétt er skilið munu námsmönnum standa til boða um 70 þúsund krónur á mánuði í beinan styrk. Er ekki varlega áætlað að aðeins 60% þeirra sem ekki taka lán í dag muni þiggja styrkinn? Hver verður kostnaður skattgreiðenda ef nánast allir námsmenn tækju við styrknum? Er hugsanlegt að þá aukist kostnaður skattgreiðenda við kerfið um 40 – 50% frá því sem nú er?

Hér er um verulega áhættu fyrir skattgreiðendur að ræða sem full þörf að ræða við fleiri en þá sem þiggja munu styrkina.