Vefþjóðviljinn 170. tbl. 20. árg.
Í dag er þjóðhátíðardegi fagnað um land allt. Í því felst ekki að allir séu í hátíðarskapi og ekki að öllum þyki ástæða til að fagna sjálfstæði Íslands eða hugsa til þeirra sem með baráttu sinni stuðluðu að því að landið fékk um síðir fullveldi og sjálfstæði. Það er ekkert sem allir eru sammála um, ekki einu sinni það að Lars Lagerback sé æðislegur.
Þetta er auðvitað augljóst. Það er samt athyglisvert að undanfarin ár hafa margir lagt áherslu á að þjóðhátíðardagurinn hafi ekkert gildi í huga stórs hluta þjóðarinnar. Að þeir sem taki þátt í hátíðarhöldum séu ekkert að hugsa um tilefni hátíðarhaldanna en séu bara mættir til að skemmta sér og fara í hoppukastala.
Ekki er víst að sömu menn yrðu ánægðir ef einhver segði að þeir sem mæta í gleðigönguna í ágúst væru bara að fylgjast með skrautsýningu og fjörugri tónlist en ekki með hugann við þann prýðilega tilgang að lýsa stuðningi við almenna réttindabaráttu þeirra sem að göngunni standa.
En þeim hefur þó vafalaust fjölgað undanfarin ár sem hafa lítinn áhuga á því sem sjálfstæðisbarátta Íslendinga snerist um. Þeir eru allmargir sem vilja ekki standa vörð um fullveldi landsins heldur leggja það í raun að stórum hluta inn í Evrópusambandið. Þeir segja það sjaldnast berum orðum að þeir vilji afsala fullveldinu. Þeir nota hugtakið að “deila fullveldinu” með öðrum ríkjum. Það sé einmitt til styrktar fullveldinu að “deila því” með Evrópusambandinu og að fela ókosnum embættismönnum í Brussel að ráða sem allra mestu á Ísladndi.
Evrópusambandssinnarnir vita alveg hvert þeri stefna. Þeir bara segja ekki frá því berum orðum núna, enda er það ekki vinsælt.
En ef menn vilja “styrkja fullveldið með því að deila því” þá er auðvitað hægt að benda þeim á aðferð til að gera einmitt það. Láta Ísland bara ganga í Bandaríkin. Þannig myndi Ísland “deila fullveldi sínu” að fullu með Bandaríkjunum og menn gætu treyst því að það sambandsríki mun alltaf verja fullveldi sitt.
En auðvitað kemur þetta ekki til greina. Ísland á að vera frjálst og fullvalda ríki, í góðu sambandi við önnur ríki heims og eiga frjáls og opin viðskipti við þau.Til að ná því markmiði þarf ekki að ganga í neitt ríkjasamband.