Vefþjóðviljinn 141. tbl. 20. árg.
Formannskjör stendur nú fyrir dyrum í Samfylkingunni. Það er að sjálfsögðu barist hart um að fá að leiða þann sterka flokk.
Meðal frambjóðenda hefur Magnús Orri Schram talsvert forskot en hann er sá eini þeirra sem hefur enn lýst því yfir að hann vilji leggja flokkinn niður. Í stað þess flokks, sem hann vill leiða og leggja niður, eigi svo að stofna annan flokk sem verði frábrugðinn þessum að því leyti að sá nýi hafi skrifstofu á jarðhæð.
Í því felst auðvitað mikil breyting. Með því að leggja niður Samfylkinguna og stofna nýjan flokk, með skrifstofu á jarðhæð, verður stigið stórt skref í átt að sameiningu vinstriflokkanna sem ná mun hámarki þegar Helgi Hrafn Gunnarsson hafnar tilkynningu Birgittu Jónsdóttur um kosningabandalag með Katrínu Jakobsdóttur á fundi með vinnustaðasálfræðingi undir söng Guðmundar Steingrímssonar.
En það að bjóða sig fram til formennsku í stjórnmálaflokki með það meginmarkmið að leggja flokkinn niður er auðvitað mjög sniðugt bragð. Þeir sem eru á kjörskrá í formannskjörinu eru félagsmenn í Samfylkingunni og þar með manna líklegastir til þess að hafa skilning á þýðingu þess að leggja flokkinn niður. Í fyrra náðu þeir til dæmis að kjósa milli tveggja formannsframbjóðenda með þeim hætti að hvorugur náði meirihluta.
Auðvitað gæti einhver haldið að það baráttumál að leggja eigin flokk niður sé eins og að samþykkja Icesave eða reka Lars Lagerbäck. En hér á Samfylkingin í hlut. Innan vinstriflokkanna hafa menn mikinn skilning á því að leggja niður núverandi flokka og stofna nýja, sérstaklega ef sá nýi hefur skrifstofu á jarðhæð.