Mánudagur 4. apríl 2016

Vefþjóðviljinn 95. tbl. 20. árg.

Hve margir Íslendingar eiga aflandsíbúðir á Spáni?
Hve margir Íslendingar eiga aflandsíbúðir á Spáni?

Hvers vegna  hafa menn ekki vitað það undanfarin 7 ár að alþingismaður, formaður stjórnmálaflokks og síðar forsætisráðherra átti mikla sameiginlega hagsmuni með kröfuhöfum gömlu íslensku bankanna?

Það er vegna þess að eignarhald, framkvæmdastjórn og prókúra kröfuhafans Wintris Inc. var falið í skattaskjóli á aflandseyju.

Ef að einhver staður á Jörðinni er skattaskjól þá eru bresku Jómfrúreyjar það.

Og þeir sem geyma fjármuni sína annars staðar en þar sem þeir eiga heima eru þar með þá af landi. Þeir sem enn eiga sparisjóðsbók í Uppsala eftir nám þar eru með aflandsreikning í Svíþjóð.

Það geta verið fullkomlega gildar skýringar á því að menn eigi reikninga og félög af landi og á stöðum þar sem skattar og aðrar skyldur eru í minni en hér á landi.

En að reyna að halda því fram að bresku Jómfrúreyjar séu ekki skattaskjól var furðuleg ráðstöfun á tíma forsætisráðherrans á alþingi í dag.