Vefþjóðviljinn 113. tbl. 20. árg.
Hann er algerlega furðulegur söngurinn um „kosningar í haust“.
Auðvitað vill stjórnarandstaðan kosningar. Hún sér þar tækifæri til að komast sjálf til valda. Hún veit sem er að mörg mjög jákvæð teikn eru í efnahagsbúskap ríkisins og hagur hins almenna manns vænkast jafnt og þétt. Stjórnarandstaðan vill skiljanlega að kosið verði sem fyrst, því jafnt og þétt batnandi efnahagur fólks, stórbætt skuldastaða venjulegs fólks, aukinn sparnaður heimila í stað skuldasöfnunar og talsverðar launahækkanir, gera bölmóðstal stjórnarandstöðuflokkanna ótrúverðugra eftir því sem tíminn líður.
Það er því lykilatriði fyrir stjórnarandstöðuna að fá kjörtímabilið stytt.
En hvers vegna í ósköpunum ætti alþingi að stytta kjörtímabilið?
Fyrir því eru engin frambærileg rök.
Í óðagotinu á dögunum, þegar þáverandi forsætisráðherra sagði af sér með litlum fyrirvara og skyndileg tortryggni varð milli manna í stjórnarflokkunum, var nefnt að til greina kæmi að stytta kjörtímabilið. En fyrir slíku eru engin eðlileg rök lengur, nú þegar ljóst er að stjórnarflokkarnir hafa náð saman með eðlilegum hætti og ríkisstjórnin nýtur öflugs meirihluta á alþingi.
Í landinu er ríkisstjórn með traustan þingmeirihluta. Meira er eitt ár er eftir af kjörtímabilinu. Það er fullkomlega ólýðræðislegt að láta sér koma til hugar að leysa lýðræðislega kjörið Alþingi frá störfum, afturkalla umboð 63 réttkjörinna alþingismanna, við þessar aðstæður.
Alþingi hefur sjálft hafnað tillögu um vantraust á ríkisstjórnina og þingrof.
En það er skiljanlegt að af pólitískum ástæðum reyni stjórnarandstaðan og fjölmiðlamenn hennar að tala á hverjum degi um að ákveðin verði dagsetning fyrir „haustkosningar“. Stjórnarandstaðan veit sem er að fyrir styttingu kjörtímabilsins eru engin skynsamleg rök og að stjórnarþingmenn gætu sjálfir áttað sig á því einhvern daginn.
Þess vegna er allt kapp lagt á að reyna að svíða út einhverja dagsetningu, áður en þingmenn stjórnarflokkanna hætta við að leika afleik ársins.