Föstudagur 9. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 9. janúar 2015

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins var í gær sagt frá því að Reykjavíkurborg hefði getað leyst til sín lóð á Keilugranda 1 með lágmarkstilkostnaði en kaus þess í stað, á árinu 2012, að kaupa hana á 240 milljónir.

Samkvæmt fréttinni hvíldi á lóðinni leigusamningur sem renna skyldi út 2016. Er haft eftir Kjartani Magnússyni borgarfulltrúa að hann sé fullviss, eftir að hafa farið vandlega yfir málið, „að ef leigusamningurinn hefði verið látinn renna sitt skeið á enda og Reykjavíkurborg hefði ákveðið að breyta skipulagi lóðarinnar, hefði borgin getað leyst lóðina til sín án endurgjalds, eða að minnsta kosti með lágmarkstilkostnaði.“

Fram kemur í fréttinni að lóðin verði ekki boðin út heldur muni Búseti kaupa hana af borginni, en kaupverðið hafi ekki verið ákveðið. Í fréttinni er einnig talað við Daníel Isebarn Ágústsson hæstaréttarlögmann og haft eftir honum að þetta sé ekki í samræmi við meginreglur: „Ef lóð í eigu sveitarfélags er seld á verði langt undir markaðsvirði, er í raun um gjöf sveitarfélagsins að ræða. Gjöfin felst þá í mismuninum á söluverðinu og markaðsverðinu. Í slíku tilviki má því segja að byggingarframkvæmdin í heild sinni sé fjármögnuð að hluta til af sveitarfélaginu, enda er kaup á lóð hluti af heildarkostnaði við byggingu. Ef sveitarfélagið tekur þannig, með óbeinum hætti, stóran þátt í kostnaði við byggingarframkvæmd hlýtur að teljast eðlilegt að framkvæmdirnar séu boðnar út.“

Hugsanlega eru á þessu öllu eðlilegar skýringar. Þessar ákvarðanir voru teknar í borgarstjóratíð Jóns Gnarrs. Fréttamenn munu venju sinni samkvæmt leita svara hans við þeim spurningum sem vakna vegna þessa.