Vefþjóðviljinn 228. tbl. 17. árg.
Samkvæmt lögum um landlækni er markmið hans „að stuðla að heilbrigði landsmanna“. Landlæknir „ber ábyrgð á því að embættið sem hann stýrir starfi í samræmi við lög“, segir einnig í lögunum.
Þrátt fyrir þetta og annað í lögunum, svo sem um fagráð og lýðheilsusjóð, eru ekki allir landsmenn heilbrigðir. Landlækni hefur samkvæmt því ekki tekist að stuðla að heilbrigði þeirra.
Landlæknir hefur því brugðist.
Nei, auðvitað hefur landlæknir ekki brugðist, þó ekki séu allir heilbrigðir. Ákvæði um að landlæknir eigi að „stuðla að heilbrigði landsmanna“, þýðir ekki að hann beri ábyrgð á því að allir séu heilbrigðir. Þetta er almenn stefnuyfirlýsing, en hefur ekki sérstakt gildi. Það að einhver stofnun hafi það að markmiði að „stuðla að“ einhverju, þýðir ekki stofnunin beri ábyrgð á að þetta eitthvað verði.
Lengi vel skildu flestir þetta. Fyrir nokkrum árum byrjaði hins vegar söngurinn um að „eftirlitið hefði brugðist“, og stjórnsýslan „brást“ víst líka, var hrópað af miklum krafti. Og síðan þegar búið er að telja mönnum trú um að áföll hafi orðið af því að „eftirlitið brást“, þá er um leið búið að sannfæra þá um tvennt annað. Í fyrsta lagi að með opinberu eftirliti megi koma í veg fyrir áföll, og í öðru lagi að ef menn vilji ekki fá fleiri áföll, þá verði að „efla eftirlitið“. Áföllin hljóti að hafa verið vegna þess að eftirlitið hafi brugðist, eða þá að afnumin hafi verið lögin sem hefðu einmitt komið í veg fyrir áföllin.
Þessu trúir fjöldi fólks ennþá. Samt hefur enginn hrakið að eftirlitið hafði verið aukið ár frá ári og fjárframlögin til þess einnig. Og enginn hefur getað bent á lögin sem hafi verið afnumin. Hér á landi voru sambærilegar eða harðari reglur en í nágrannalöndunum. Einungis hér hefur orðið sú þjóðtrú að reglur eða regluleysi hafi valdið áföllum.
Þegar menn munu loksins leggja það á sig að endurhugsa hlutverk hins opinbera í þjóðlífinu, þá mega þeir ekki loka augunum fyrir því, að eftirlit tryggir ekki áfallaleysi, aukið eftirlit bætir ekki endilega þjóðlífið, og áföll þýða ekki að eftirlitið hafi brugðist.