Vefþjóðviljinn 252. tbl. 17. árg.
Vinstrimenn, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, eru mjög ákafir um að sem allra þyngstar byrðar séu lagðar á sjávarútveginn í landinu. Hafa þeir árum saman alið á þeirri hugsun hjá mönnum, að verið sé að veiða fiskinn „þeirra“, og byggir sá áróður á misskilningi á hugtakinu „sameign íslensku þjóðarinnar“. Er mjög hamrað á þeim misskilningi í opinberri umræðu.
Fyrir nokkrum árum var samþykkt, til þess að skapa sjávarútveginum frið fyrir samfelldum árásum, að lagt yrði hóflegt veiðigjald á hann, ofan á þá skatta sem sjávarútvegsfyrirtækin greiða eins og önnur fyrirtæki í landinu. Um leið og vinstrimenn náðu hins vegar sjálfir völdum var þetta hóflega sáttagjald hins vegar hækkað gríðarlega og þannig að fjölmörg útgerðarfyrirtæki á landsbyggðinni stóðu vart undir því. Eftir ríkisstjórnarskipti í vor var stigið hænuskref til baka í þessum málum, en mun minna en þarf að stíga. En það hænuskref er samt nóg til þess að vinstrimenn tryllast af reiði og frekju.
Í gærkvöldi fjallaði fréttastofa Ríkisútvarpsins um þetta hugðarefni vinstrimanna. Birtur var listi, upp úr ársreikningum, um hagnað fjöggurra stærstu útgerðarfyrirtækjanna. Fyrirtækin hefðu, samkvæmt ársreikningunum, hagnast í fyrra um samtals 28 milljarða króna. Svo var birt tafla um veiðigjöldin sem sömu fyrirtækin eiga að greiða. Veiðigjöldin næmu um fimm milljörðum króna.
En hvað var ekki nefnt í fréttinni? Það var hvað sömu fyrirtæki hefðu greitt í tekjuskatt á sama tíma. Fyrirtækin greiða auðvitað einnig tekjuskatt samkvæmt almennum reglum, þó greidd veiðigjöld teljist til rekstrarkostnaðar.
Í fréttinni kom fram að af þessum 28 milljarða hagnaði væru tæplega níu milljarðar raunar komnir vegna erlendra fyrirtækja í eigu Samherja hf., en ekki var nefnt hvort fréttastofu Ríkisútvarpsins finnst réttlætismál að einnig verði greitt auðlindagjald af veiðum þeirra fyrirtækja í fjarlægum höfum.
Það er hætt við því að taflan hefði litið öðru vísi út í augum áhorfenda ef tekjuskatturinn hefði verið birtur með, en hagnaður af starfsemi erlendra fyrirtækja ekki.
Útgerðarfyrirtæki leggja gríðarlegt fé í ríkissjóð. Þau greiða verulegan tekjuskatt og starfsmenn þeirra gera það líka. Þau kaupa mikið af vörum og þjónustu sem skattur er lagður á. Hvað halda menn til dæmis að þau kaupi af olíu á hverju ári? Jafnvel þótt engin veiðigjöld væru, þá fengi „þjóðin“ gríðarlegar tekjur af „eign sinni“ á hverju ári, svo lengi sem sjávarútvegur gengur vel. Þeir sem trúa því að „þjóðin“ eigi fiskinn í sjónum og eigi skilið arð af þeirri „eign sinni“, ættu að láta sjávarútveginn í friði. Þannig dafnar hann best og skilar mestum tekjum upp á land.