Vefþjóðviljinn 157. tbl. 17. árg.
Það mun ýmislegt þurfa undan að láta til að hugmyndin um „skuldaleiðréttingu“ nái fram að ganga. Réttarríkinu verður vikið til hliðar með „beitingu fullveldisréttarins“ og „eðlilegu framhaldi neyðarlaganna“ eins og forsætisráðherra kallar það. Hann og Frosti Sigurjónsson hafa sem frægt er nefnt kylfur og haglabyssur í þessu sambandi. Klapplið þeirra sem kennir sig við snjóhengju krefst þess að í leiðinni verði helstu einkabankar landsins þjóðnýttir.
Nýjasta bráð forsætisráðherrans er svo einkalíf manna. Þetta boðaði hann á Eyjunni í fyrradag:
Við þurfum til dæmis að breyta lögum til að veita Hagstofunni aðgang að upplýsingum um skuldamál í bönkunum. Fram að þessu hafa bankarnir ekki talið sig hafa lagaheimild til að afhenda upplýsingarnar.
Munu menn ekki gefa sig fram með veðbókarvottorðin þegar efna á loforðið um að klípa 20% af höfuðstól lánanna? Þeir sem vilja fá skuldir sínar „leiðréttar“ hljóta sjálfviljugir að veita Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni upplýsingar um skuldastöðu sína. Er nokkur ástæða til að breyta lögum svo hagstofan geti skoðað heimilisbókhald fólks?
En kannski er það sárasaklaust að hagstofan og nýi skuldaleiðréttingasjóðurinn fái að gramsa í upplýsingum um persónuleg fjármál fólks, það er ekki eins og verið sé að biðja um leyndarmál á borð við prófgráður frá Oxford.