Vefþjóðviljinn 333.tbl. 16. árg.
Þegar menn standa í lýðskrumsframboði þá verða þeir að koma sér í fréttir með einhverju móti. Nú hafa Guðmundur Steingrímsson, úr Framsóknarflokki, Samfylkingu, Framsóknarflokki og Bjartri framtíð og Róbert Marshall úr Alþýðubandalaginu, Samfylkingunni og Bjartri framtíð, náð sér í fréttir fyrir að þeir ætla ekki að styðja tillögu um hækkun virðisaukaskatts á gistingu. Sú afstaða þeirra er auðvitað fréttnæmari en sama afstaða þrjátíu annarra þingmanna.
En hvaða ástæður gefa þeir Guðmundur og Róbert fyrir afstöðunni. Jú, þeir nefna sérstaklega að „ekkert samráð“ hafi verið haft við ferðaþjónustumenn um þessa hækkun.
Svona málflutningur er dæmigerður fyrir lýðskrumsmenn sem vilja fá fjölmiðlaathygli á sérframboðið sitt. Hvenær hafa þeir haft áhyggjur af samráði við þá sem skattahækkun bitnar á? Kröfðust þeir þess að haft yrði samráð við stönduga áður en „auðlegðarskattur“ var lagður á? Við hvern var haft samráð áður en búinn var til fjölþrepa-tekjuskattur með allt upp í rúmlega 46% skatt á tekjur? Eða allar hinar hundrað skattahækkanirnar undanfarin ár? Hvenær hafa núverandi stjórnvöld haft samráð við nokkurn mann og hvenær hafa Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson talið það standa í vegi fyrir nokkru? Og hvers vegna spyrja fréttamenn ekki að þessu, þegar þeir reka hljóðnemann framan í þá félaga og afhenda þeim ókeypis auglýsingu fyrir framboðið sitt.
Stjórnarmeirihlutinn vildi ekki einu sinni samráð við íslensku þjóðina um það hvort Ísland skyldi sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hafa þeir Róbert og Guðmundur eitthvað við slík vinnubrögð að athuga?
En þegar stutt er í kosningar og hægt er að slá sér upp í augum fjölmargra í ferðaþjónustu og fá að auki mynd af sér í fréttum.