Miðvikudagur 4. ágúst 2010

216. tbl. 14. árg.

K atrín Jakobsdóttir hefur ákveðið að leggja eina milljón króna af opinberu fé til þess að „styrkja rannsóknir á íslensku háskólakerfi og þætti þess í hruninu“. Peningarnir fara til „rannsóknarstofu um háskóla“, undir forystu Páls Skúlasonar, prófessors við Háskóla Íslands og fyrrverandi rektors skólans.

Auðvitað á að láta núverandi prófessor og fyrrverandi rektor Háskólans rannsaka „þátt háskólakerfisins í hruninu”.

B jarni Fritzson handknattleiksmaður hefur farið fyrir hópi gamalla og nýrra Breiðholtsbúa sem undanfarið hefur vakið athygli á sóðaskap og ógeðfelldu umhverfi víða í hverfinu, svo sem við leikvelli og opin svæði. Hópurinn mun hafa reynt margt til að ná eyrum borgaryfirvalda og gerði meðal annars skýrslu um ástandið, og kom henni til ráðamanna fyrr í sumar. Ríkissjónvarpið spurði Bjarna um árangur af þessu framtaki:

„Ja, Jón Gnarr bauð okkur í laxveiði, það var nú fallegt af honum. Ég hef svo sem ekki tekið eftir neinu sérstöku sem hefur verið gert hérna í hverfinu síðan við settum út þessa skýrslu.“

Ætli einhvers staðar hefði hvinið í mönnum, ef það hefði verið borgarstjóri „gamla tímans“ en ekki „skemmtilega fólksins“ sem hefði brugðist svona við? Jón bauð hópnum í laxveiði og hefur hann þar líklega boðið þá daga sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur hingað til fengið til veiða, en Jón tilkynnti fyrr í sumar að hann vildi útdeila þeim veiðidögum til almennra borgarbúa. Borgarstjóri sjálfur fær hins vegar opnunardaginn og annan dag síðar um sumarið. Jón Gnarr mætti þá daga á árbakkann. Það voru bara dagar hinna borgarfulltrúanna sem hann ákvað að bjóða borgarbúum.