Miðvikudagur 4. nóvember 2009

308. tbl. 13. árg.

Þ egar Jóhanna Sigurðardóttir varð ráðherra á sínum tíma, sló hún sér meðal annars upp á því að nota ekki embættisbifreið ráðherra heldur ók um á eigin bifreið. Þetta þótti sýna alþýðleika hennar.

Nú hefur Jóhanna verið forsætisráðherra í meira en hálft ár. Hefur einhver fréttamaður kannað hvernig Jóhanna háttar þessum málum nú? Hvort hún sé farin að nota ráðherrabifreið og ef svo er, hvers vegna og hvenær hún hafi tekið upp nýjan sið.

Ekki það að Vefþjóðviljanum þyki slíkt skipta miklu máli, en svo mikið var nú gert með ráðherrabíls-leysi Jóhönnu á sínum tíma að einhver kynni að hafa áhuga á því hvort það hefði breyst.

Í gær svaraði Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur, sem fenginn var með í að semja nýjasta Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar, grein Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors og Lárusar L. Blöndals hæstaréttarlögmanna sem birst hafði í Morgunblaðinu síðustu helgi. Helgi segir, að þeir Stefán Már og Lárus, sem töldu þá fyrirvara alþingis, sem mestu hefðu skipt við samningu ríkisábyrðgarlaganna í sumar, verða að engu með samþykkt hins nýja frumvarps Steingríms J. og Helga Áss, hafa byggt þá skoðun sína á fjórum meginatriðum. Helgi endursegir rökstuðning þeirra svo:

Þetta mat tvímenninganna byggðist á að skoða fjögur meginatriði, þ.e. (1) gildistíma ríkisábyrgðar, (2) efnahagslegu viðmiðin, (3) dómstólaleið sem varðar skyldu aðildarríkis EES-samningsins að veita ríkisábyrgð vegna lágmarkstryggingar innstæðueigenda og (4) úthlutun og uppgjör á eignum Landsbanka Íslands hf. en þessi síðastnefndi fyrirvari er oft kenndur við Ragnar H. Hall, hrl.

Helgi Áss slær öll vopn úr höndum þeirra félaga hratt og örugglega:

Undirritaður er ekki sammála nálgun og niðurstöðum tvímenninganna um fyrstu þrjú atriðin og byggist sú skoðun aðallega á þeim upplýsingum sem koma fram í köflum 3.1, 3.4 og 3.5 almennra athugasemda áðurnefnds lagafrumvarps. Ekki verður fjallað nánar um það í þessari grein.

Nei auðvitað ekki. Af hverju ætti að fjalla nánar um það í svargreininni? Hafa menn ekki fengið að vita nóg? Helgi Áss er hreinlega ekki sammála „þeim tvímenningum“, og byggir það „aðallega“ á upplýsingum sem fram koma í köflum 3.1., 3.4 og 3.5 í almennum athugasemdum frumvarpsins sem hann átti þátt í að semja.

Þetta liggur þá ljóst fyrir og vinstrigrænir geta sofið rólegir.

Ekki verður nánar fjallað um það í dag.