Laugardagur 10. október 2009

283. tbl. 13. árg.

E ins og menn vita þurftu Írar að kjósa að nýju um væntanlega stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem raunar fékk nýja nafnið Lissabon-sáttmálinn eftir að forkólfunum í Brussel hafði orðið það á að leyfa Frökkum og Hollendingum að greiða atkvæði um stjórnarskrána. Var hún þá þegar kolfelld, svo henni er þá komið á, undir dulnefni. Verður það gert alls staðar án þjóðaratkvæðis nema á Írlandi og þurfti þá tvær atkvæðagreiðslur áður en rétt niðurstaða fékkst. En nú er hún fengin svo nú verða Írar ekki spurðir framar. Ef þeir hefðu fellt, þá hefðu þeir ekkert fengið út úr því annað en þriðju kosninguna.

Þetta lýðræðisríkið sem íslenskir Evrópusambandssinnar, í skjóli ríkisstjórnarinnar sem þau Jón Bjarnason, Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þuríður Backman styðja, ætla að fara með Ísland inn í.

En nú hefur komið í ljós að í raun var óþarfi að ómaka Íra tvívegis á einhverri kosningu. Þetta yfirvofandi evrópska stórríki, með miðstýrðri ókosinni stjórn á flestum mikilvægum sviðum, sem Evrópuríkin búa sig nú undir, er víst bara hugarburður. Evrópusambandið er bara einhver saklaus vettvangur en ekkert alvarlegt. Að minnsta kosti fengu Íslendingar þann fróðleik í vikunni frá sjálfum Eiríki Bergmann Einarssyni, sem nú hefur gefið út sjötugustu bók sína um málefnið. Í viðtali á Bylgjunni, síðastliðinn miðvikudag, sagði fræðimaðurinn þessi hughreystingarorð sem hefðu getað sparað Írum mikla fyrirhöfn ef þau hefðu bara fallið fyrr:

Þegar að Evrópusamruninn fer af stað á sínum tíma þá fara menn sko markvisst af stað með þann ásetning að það sé engin þekkt endastöð. Þetta er vegferð sem er farin af stað en við vitum ekkert hvar hún endar og hún þróast og breytist eftir viðfangsefnum á hverjum tíma. Og það er ágætt að hugsa um Evrópusambandið sem bara vettvang fyrir þessi 27 ríki til þess að ráða sínum ráðum, koma saman og miðla málum og takast á við þau viðfangsefni sem uppi eru á hverjum tíma. Og ég er alveg handviss um það að það mun í framtíðinni ver[ð]a þörf fyrir einhvers konar kerfisbundinn vettvang Evrópuríkja til þess að starfa saman og miðla málum því að annars endum við náttúrulega bara í átökum enn á ný og það vill það enginn. Og það er kannski óttinn við átökin sem að bindur þessar þjóðir – eins ólíkar og þær nú eru – saman inn í þetta fyrirbæri. En Evrópa er náttúrulega ennþá byggð náttúrulega bara sjálfstæðum ríkjum sem hafa bara sínar eigin… sín eigin stefnumál og haga sínum málum eftir eigin höfði. Evrópusambandið er bara svona lítill…, tekur til bara svona mjög takmarkaðra þátta í samskiptum þessara ríkja.