N ú er upp runninn sá dagur þegar rjúfa átti þing vegna kosninga 25. apríl. Eftir að Jóhönnustjórnin tók við, þessi verkmikla með öflugu verkstjórnina, hefur hins vegar lítið gerst í löggjafarstarfi, sem ríkisstjórnin var þó mynduð til, að sögn. Fyrsta heila mánuðinn gerðist ekkert nema bögglað var í gegnum þingið frumvarpi Samfylkingarinnar gegn bankastjórum seðlabankans, persónulega. Allan þann mánuð réttlætti Jóhanna Sigurðardóttir bæði ákafann fyrir frumvarpinu, sem og þá staðreynd að ekkert annað kom frá ríkisstjórninni, með því að frumvarpið gegn bankastjórunum tveimur væri nauðsynleg forsendna alla hinna miklu efnahagsumbóta sem yrðu, jafnskjótt og þeir væru horfnir.
Ríkisstjórnin var svo frumkvæðislaus að öðru leyti að þingfundir voru hreinlega felldir niður ef málið komst ekki á dagskrá.
Af því tilefni má spyrja, þó íslenskir fréttamenn muni aldrei nokkurn tíma gera það:
Nákvæmlega hvaða efnahagsfrumvörp eru það sem ekki var hægt að leggja fram og gera að lögum á meðan bankastjórarnir voru í starfi?
Hvers vegna, nákvæmlega, var það sem bankastjórarnir tveir gerðu það ómögulegt? Og vinsamlega ekki koma með órökstudda upphrópun um að „bankinn hafi ekki notið trausts“. Hvers vegna nákvæmlega var ekki hægt að leggja fram og fá samþykkt frumvörp á meðan bankastjórarnir voru við störf?
Og nú, fyrst Jóhanna álítur að sér hafi tekist að koma þeim úr starfi, hvaða frumvörp hafa þá orðið að lögum síðan, sem ekki gátu orðið það á meðan þeir voru í starfi?
Þetta eru afar eðlilegar spurningar sem stóryrtur forsætisráðherra yrði látinn svara í hverju því landi sem fréttamenn störfuðu.
Og sjá ekki allir, að staðreyndin er sú að ríkisstjórnin svokallaða er úrræðalaus í efnahagsmálum? Fyrri þingmánuðurinn var notaður í frumvarp gegn bankastjóra, í vissu þess að þá myndu fréttamenn ekki hafa áhuga á neinu öðru. Síðari þingmánuðurinn er settur í óundirbúnar stjórnarskrárbreytingar, í vissu þess að þá verði ekki spurt um neitt annað á meðan. Svo ætlar stjórnin að fara í kosningar, tala þar í frösum, og ná völdum til að framlengja úrræðaleysi sitt í fjögur ár enn.