Þriðjudagur 9. desember 2008

344. tbl. 12. árg.

M á ekki örugglega treysta því að í dag muni formenn allra stjórnmálaflokka fordæma harðlega þá árás sem í gær var gerð á Alþingi? Og þá meinar Vefþjóðviljinn fordæma undanbragðalaust og án allra útúrdúra um að auðvitað skilji þeir nú og svona og svona. Hér duga engin undanbrögð og afsakanir.

Hver maður má, ef hann vill, hvetja alþingi til að leysa sjálft sig upp og boða til kosninga. En það er grafalvarlegt mál ef menn telja sig eiga rétt á að það verði gert og hafa jafnvel einhverja heimild til að reyna að knýja þann vilja sinn fram. Það er ábyrgðarhluti ef þeir sem vita betur, reyna undir rós að ala á slíkum misskilningi. Það var afar ámælisvert af reyndum stjórnmálamanni, eins og Steingrími J. Sigfússyni, að segja það framan í alþjóð að það sé misnotkun á lýðræðinu ef rétt kjörið alþingi fer ekki frá völdum á miðju kjörtímabili.

Það er einfaldlega engin nauðsyn á kosningum. Menn geta alveg hvatt til þeirra, en þeir sem telja að einhver eigi heimtingu á kosningum, þeir vaða reyk. Það er í raun stóralvarlegt mál, að það sé búið að koma því inn hjá hópi fólks að hann hafi einhvern rétt á því að taka völdin af lýðræðislega kjörnu alþingi. Að tilraunir til slíks geti verið eitthvað smámál, að hótanir um slíkt, settar fram í ræðu og riti, séu bara allt í lagi. Að þeir sem reyni að beita valdi séu bara „mótmælendur“.

Núverandi forseti Íslands var ein helsta málpípa stærstu útrásarfyrirtækjanna og sinnti ýmsum erindum fyrir þau. Eflaust hafa einhverjir stuðningsmanna hans snúið við honum bakinu nú vegna þess. En telja menn að forsetinn eigi að fara frá, núna, vegna þessa og „leyfa þjóðinni að dæma“ um störf sín?

Auðvitað væri hverjum manni frjálst að hvetja til afsagnar forsetans. En rétturinn næði ekki lengra en það. Hvernig tæki fólk því ef menn ryddust inn á skrifstofu forsetans og gerðu sig líklega til að henda honum út? Öskruðu svo bara „þetta er okkar hús“ þegar forseti Íslands sæti sem fastast.

Og á þessu öllu bera líka siðferðilega ábyrgð þeir sem undanfarnar vikur hafa setið sveittir við að dreifa ranghugmyndum og kviksögum í bland við misjafnlega rökstudd stóryrði um menn og málefni – að ekki sé talað um þá menn sem víla ekki fyrir sér að birta á heimasíðum sínum misdulbúnar hvatningar til óhæfuverka, og það jafnvel undir dulnefnum sem þeir segja að séu komin frá lesendum sínum en ekki sjálfum sér.