Laugardagur 21. júlí 2007

202. tbl. 11. árg.

S

Gott er til þess að vita að Samfylkingin lætur menn ekki gjalda pólitískra tengsla við formann eða varaformann flokksins.

amfylkingin er faglegur flokkur og eðlilega fer þar fremstur formaður flokksins sem hefur orðið tíðrætt um samræðustjórnmál og fagleg vinnubrögð. Faglegu vinnubrögðin felast einkum í því að láta fólk njóta annarra kosta sinna en þeirra að hafa starfað með tilteknum stjórnmálaflokki. Ef velja á fólk í tilteknar ábyrgðarstöður á til að mynda að líta fyrst og fremst til faglegrar hæfni á viðkomandi sviði. Um val á fólki sem ekki uppfyllir fagleg skilyrði Samfylkingarinnar hafa flokksmenn haft uppi stór orð enda trúir sannfæringu sinni.

Líklega er þetta ástæða þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hafði aðeins verið örfáar vikur að stilla til friðar erlendis þegar hún lét boða til hluthafafundar í ríkisfyrirtæki sem heyrir undir ráðuneyti hennar til að skipta þar um stjórn. Þetta gerði hún þrátt fyrir að aðalfundur hafi verið haldinn í vor enda afar brýnt að skipta um stjórnarmenn í ríkishlutafélaginu Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að ná fram stefnu Samfylkingarinnar um fagleg vinnubrögð hjá ríkinu.

Skiptin sem þoldu ekki bið voru meðal annars þau að víkja þurfti frá stjórnarformanninum Lindu Bentsdóttur sem auk þess að vera lögfræðingur er framkvæmdastjóri í fjárfestingarfélagi og stjórnarmaður í fjárfestingarbanka. Linda var ekki nægilega fagleg til að vera stjórnarformaður en það var hins vegar fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Jón Gunnarsson, sem féll af þingi í vor.

Ingibjörg Sólrún kaus annan ekki síður faglegan stjórnarmann, Rannveigu Guðmundsdóttur, sem einnig lét af þingmennsku fyrir Samfylkinguna í vor. Tilviljun réð því svo að þriðji faglegi stjórnarmaðurinn er nafna fyrrverandi bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Kópavogi og flokkstjórnarmanns, Sigrúnar Jónsdóttur. Sama tilviljun réð því að Sigrún Jónsdóttir var með sérstaka stuðningsyfirlýsingu á vefsíðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir formannskosninguna gegn Össur Skarphéðinssyni árið 2005. Gott er til þess að vita að formaður Samfylkingarinnar lætur Sigrúnu ekki gjalda fyrir þessi pólitísku tengsl.

Það er sömuleiðis ánægjulegt að nýkjörinn varamaður í stjórninni, Einar Örn Einarsson, skuli ekki látinn gjalda þess að sitja í stjórn félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík eða að hafa lýst opinberlega yfir stuðningi við varaformann flokksins í baráttu hans fyrir því sæti fyrir tveimur árum. Illt væri til þess að vita ef pólitík kæmi í veg fyrir að fólk fengi að njóta faglegrar hæfni sinnar þegar formaður Samfylkingarinnar velur í ábyrgðarstöður.