Í síðustu viku efndu nokkrar hjúkrunarkonur til hópgöngu „gegn slysum“, til að hvetja til varkárni í umferðinni. Í fréttum af framtakinu var meðal annars talað við einn starfsfélaga þeirra, Rúdolf Adolfsson, sem starfar á geðsviði Landspítalans og veitir þar svokallaða áfallahjálp. Í viðtalinu lagði Rúdolf áherslu á að fólk mætti hvorki búast við né ætlast til þess að opinberir starfsmenn spítalanna geti kippt öllu í liðinn eða borið hitann og þungann af glímu þeirra sem orðið hefðu fyrir áfalli. Þar yrði fólk einkum að leita til fjölskyldu sinna og vina.
Það var frískandi að heyra þessi sjónarmið Rúdolfs. Algengara er að úr fréttatímunum streymi linnulaus kröfugerð á hendur hinu opinbera; hvenær sem eitthvað ber út af mæta fréttamenn og gera dauðaleit að regluleysi, eftirlitsleysi, leiðbeiningarleysi eða skorti á einhverju öðru sem hið opinbera hefði getað staðið fyrir og þá hefði kannski ekki orðið óhapp. Og embættismenn ríkisins virðast margir óðfúsir að taka meiri ábyrgð á sig og skattgreiðendur og ganga sífellt lengra í að skipuleggja líf borgaranna. Með bönnum, boðum og skattheimtu er reynt að stýra því hvernig fólk lifir lífi sínu. Ekki borða sykur, ekki reykja, hjólaðu en ekki hjóla án hjálms, ekki kaupa neina vöru sem ekki er með sérstökum verðmiða, ekki dansa nektardans, flokkaðu sorpið þitt, merktu köttinn þinn, kjóstu konur í stjórn, ekki gera þetta, ekki borða hitt, farðu varlega maður! Barnfóstruríkið hefur þungar áhyggjur af þér.
Það verður að berjast gegn barnfóstruríkinu og þeim embættismönnum sem ekki láta sér nægja að lifa eigin lífi heldur vilja taka daglegar ákvarðanir fyrir annað fólk. Sumir hafa staðið sig betur en aðrir í þeirri baráttu. Meðal þess fjölmarga skemmtilega efni sem tímaritið Þjóðmál birtir er greinaflokkurinn Stjórnarráðssögur, þar sem húmoristinn Þorsteinn Geirsson segir í hverju hefti sögur sem tengjast stjórnarráði Íslands og þeim sem þar hafa starfað síðustu áratugina. Í nýjasta heftinu segir hann meðal annars þessa sögu sem vonandi er sönn:
Það var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir margt löngu að fundi var fram haldið snemma á sunnudagsmorgni. Jón Pálmason frá Akri var fundarstjóri og bar upp til atkvæða tillögur frá fundarmönnum. Kunnir gleðimenn úr hópi landsfundarfulltrúa voru enn ekki mættir til fundarins en þeim mun fleiri bindindismenn voru á staðnum. Báru nú nokkrir þeirra fram tillögu um að ríkisstjórnin hætti alfarið að veita áfengi í boðum sínum. Jón frá Akri bar tillöguna undir atkvæði. „Hverjir eru samþykkir tillögunni?“ spurði Jón. Allmargar hendur fóru á loft. „Og hverjir eru á móti tillögunni?“ spurði Jón aftur. Bjarni Benediktsson dóms- og kirkjumálaráðherra sem sat á fremsta bekk rétti þá einn upp hendina. „Tillagan er felld með öllum þorra atkvæða!“, sagði þá Jón og tók fyrir næsta mál á dagskrá. |
Áskrift að Þjóðmálum og stök hefti í lausasölu fást í Bóksölu Andríkis.