Það er einstætt og mjög miður að í umræðum síðustu daga um mögulegt framboð Jóns Baldvins Hannibalssonar, Andra Snæs Magnasonar, Ómars Ragnarssonar og Margrétar Sverrisdóttur, að nafn Ellerts B. Schrams hefur alveg gleymst. Þetta framboð hefur þann brag að Ellert mundi sóma sér vel í forystusveitinni. En enginn hefur stungið upp á Ellerti eins og löng hefð er fyrir þegar ný framboð eru að koma fram eða mikilvæg embætti að losna. Þar er við engan annan að sakast en Ellert sjálfan.
Það er líka athyglisvert, í ljósi þess hvernig Jón Baldvin Hannibalsson veittist að flokki Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, akkúrat núna þegar hún stendur veik fyrir og þarf helst á stuðningi að halda, að velta fyrir sér hvaða almenna lærdóm megi draga af hegðun mannsins. Jón Baldvin var áður stuðningsmaður Ingibjargar og að ætla má vinur hennar – að minnsta kosti þangað til hún tók fálega hugmynd Jóns sjálfs um að skipa hann ráðherra. Jón kýs raunar sama vettvanginn nú til að veitast að Ingibjörgu og hann kaus áður til að stinga upp á sjálfum sér í ráðherraembætti, í viðtali hjá aðdáanda sínum númer eitt.
Stjórnmál snúast að miklu leyti um traust á milli fólks og heilindi. Skyldi það teljast spennandi kostur fyrir aðra stjórnmálaflokka að starfa með stjórnmálaafli þar sem í forystu eru menn eins og Jón Baldvin? Og er þetta ef til vill ein skýringin á því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn gafst upp á stjórnarsamstarfi við Alþýðuflokkinn árið 1995 og kaus Framsóknarflokkinn í staðinn?