Helgarsprokið 8. október 2006

281. tbl. 10. árg.

Ný ríkisstjórn tók við völdum í Svíþjóð síðastliðinn föstudag. Um það er svo sem ekki margt að segja nema ef vera skyldi að ríkisstjórnin er ný í fleirum en einum skilningi. Gagnstætt því sem margir hafa haldið fram þá er hún hægri stjórn, í það minnsta ef miðað er við ríkisstjórnina sem lét af völdum og það út af fyrir sig telst eiginlega til nýjunga í Svíþjóð en í sextíuogfimm af síðustu sjötíuogfjórum árum hafa vinstrimenn verið við völd. Önnur nýjungin er sú að flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni lofuðu fyrir kosningar að lækka skatta og fækka reglugerðum . Og það er líka nýjung og reyndar ekki bara í Svíþjóð. Þriðja nýjungin er svo kannski sú að þessi stefnumál tryggðu flokkunum sigur í kosningunum.

Í grein sem birtist í Wall Street Journal, skömmu fyrir kosningarnar, segir Johnny Munkhammar, sem starfar hjá Timbro stofnuninni í Svíþjóð, stuttlega frá því hvernig kosningarnar horfa við honum.

„Og það er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að stefnumál Reinfeldts og félaga voru fyrst og fremst þau þrjú að lækka skatta, fækka reglugerðum og minnka atvinnuleysi. Þetta mætti verða þeim umhugsunarefni sem telja að borgaralegu öflin hafi borið sigur úr býtum með því að sveigja stefnu sína að stefnu sósíaldemókratanna.“

Hann bendir á að vinstrimenn undir forystu Görans Perssons og væntanlegs arftaka hans, Pär Nuder hafi reynt að sópa vandamálunum undir teppi fyrir kosningar og hafi engar endurbætur á stefnuskrá sinni. Einu stefnumálin séu að hækka skatta, fjölga reglugerðum um vinnumarkaðinn og banna einkarekna samkeppni við hefðbundinn opinberan rekstur svo sem heilbrigðisþjónustu.

McKinsey stofnunin áætlar að atvinnuleysi í Svíþjóð sé um 15% sem er næstum tvöfalt hærra en opinberar tölur Eurostat sem hljóða upp á 7,8%. En Eurostat telur til dæmis ekki með þá sem eru atvinnulausir en njóta tímabundinna úrræða á vegum ríkisins. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er svo 22% sem er það fimmta hæsta í Evrópusambandinu.

Auk þessa segir Munkhammar að flokkur sósíaldemókrata sé flæktur í sérhagsmunanet sem geri breytingar næstum óhugsandi. En hvers vegna, spyr Munkhammar, hefur stjórnarandstaðan ekki fyrir löngu tryggt sér öruggan sigur í kosningunum og hvers vegna hafa stjórnarskipti verið svona fátíð?

Þessu til skýringar nefnir hann náin tengsl verkalýðshreyfingarinnar og sósíaldemókrataflokksins. Reglugerðir um vinnumarkað valdi því að í raun sé skylduaðild að verkalýðsfélögum, sömu verkalýðsfélögum og styðji sósíaldemókrataflokkinn. Við það bætist svo að í Svíþjóð eru í gildi lög sem kveða á um að atvinnurekandi verði að greiða starfsmanni full laun á meðan starfsmaðurinn sinnir félagsmálum fyrir þá verkalýðshreyfingu sem hann tilheyrir og þá er starfsmaðurinn vitaskuld ekki í vinnunni á meðan. Vegna þessara tengsla sósíaldemókrataflokksins og verkalýðshreyfingarinnar þýði þetta í raun að á kosningaári eru þúsundir manna í Svíþjóð að vinna nær fulla vinnu fyrir sósíaldemókrata en laun þeirra eru greidd af hinum ýmsu fyrirtækjum, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Auk þessa eru stjórnir háskóla og ýmissa félagasamtaka í höndum sósíaldemókrata og til að bæta gráu ofan á svart eyddi síðasta ríkisstjórn fjárfúlgum í kosningabaráttu á kostnað skattgreiðenda undir því yfirskini að stjórnvöld væru að upplýsa almenning.

Það má því teljast merkilegt, í ljósi þessa og hneykslismáls Þjóðarflokksins, skömmu fyrir kosningar, að bandalag stjórnarandstöðunnar, undir forystu Fredrik Reinfeldt skyldi vinna sigur á sósíaldemókrötum í kosningunum. Og það er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að stefnumál Reinfeldts og félaga voru fyrst og fremst þau þrjú að lækka skatta, fækka reglugerðum og minnka atvinnuleysi.

Þetta mætti verða þeim umhugsunarefni sem telja að borgaralegu öflin hafi borið sigur úr býtum með því að sveigja stefnu sína að stefnu sósíaldemókratanna.