Á dögunum ræddu menn nokkuð áhyggjur sínar af íslensku og kunnáttu yngri kynslóða í því ágæta máli. Sennilega voru þær umræður ekki alveg ástæðulausar, því þrátt fyrir að vitaskuld hafi fljótt verið sunginn hinn sígildi varnarsöngur um að málið væri „í þróun“, þá virðist sem nú séu þeir tímar að það þyki ekkert tiltökumál þó talað sé rangt mál opinberlega. Fréttamenn, blaðamenn og auglýsendur virðast litlar áhyggjur hafa af rangri fallbeygingu, ufsilonum á skökkum stað eða kynvilltum orðum. Enginn ætti lengur að láta sér bregða þó í skýringartexta í fréttaskýringu í sjónvarpi sé einu y of mikið eða lítið, og alls ekki ætti nokkur maður að eyða tíma sínum í að bíða eftir að beðist sé forláts á snilldinni. Einn ótalmargra umsjónarmanna vinsæls umræðuþáttar í sjónvarpi gætir þess vandlega að beygja orð sem enda á stafasamsetningunni -dóttir með öðrum hætti en tíðkast hefur í landinu undanfarið og ekki virðist neinn á sjónvarpsstöðinni hafa meiri skoðun á því en því vísindaundri að óðar en þætti þessum var breytt síðastliðið haust misstu karlmenn sem að honum koma hæfileikann til þess að hnýta á sig bindi.
Já núna tala menn vitlaust og þykir gott. En það er ekki bara málfarið sem er undarlegt í fjölmiðlum. Það er eins og menn geti sagt hvað sem er og flestum sé sama. Fréttamenn, pistlahöfundar, álitsgjafar eru komnir upp á lagið með að fullyrða bara það sem þeim hentar og svo segir enginn neitt. Ef einhver nennir að leiðrétta, eða bara spyrja hvað menn hafi fyrir sér, þá er farið í fýlu. Það þykir ákaflega leiðinlegur mórall að leiðrétta annan, sérstaklega ef það er fyrir „smáatriði“. En villurnar eru úti um allt enda íslenskir fjölmiðlar svo að springa úr fagmennsku að þeir þurfa að efna til sérstakra blaðamennskuverðlauna fyrir helstu rósaræktendur sína.
Á forsíðu Blaðsins fyrr í þessari viku var frétt um það, sem raunar var ákveðið fyrir ári, að gjald yrði tekið fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingarblaðinu. Um það segir blaðamaður: „Margir hafa gagnrýnt þessa gjaldtöku og bent á að með henni sé verið að skerða aðgang fólks til [að] afla sér upplýsinga um lög og lagabreytingar“ og svo er stuttlega rætt við Hlyn Hallsson varaþingmann vinstrigrænna sem raunar segir eitthvað allt annað. Nú væri skemmtilegt ef blaðamaðurinn ræddi aftur við þessa mörgu sem hafa þungar áhyggjur af málinu, því lög og lagabreytingar eru alls ekki birt í Lögbirtingarblaðinu. Þar eru aðallega birtar innkallanir eftir gjaldþrotaúrskurði og er heldur leiðinleg lesning. Nú er þetta smáatriði, en kannski ekki sérstaklega traustvekjandi að blaðamaður hafi hitt marga sem allir benda á að 1.500 króna gjald fyrir hinn nýja rafræna aðgang að Lögbirtingarblaðinu verði til þess að nú viti fólk ekki lengur um lagabreytingar.
Á dögunum birti Fréttablaðið sérstaka fréttaskýringu um lög og stjórnarskrána. Þar sagði meðal annars að Jón Steinar Gunnlaugsson hefði verið eini fræðimaðurinn sem stutt hefði svokallað fjölmiðlafrumvarp. Nú ræðst ágæti frumvarpa auðvitað ekki af því hvort fleiri eða færri „fræðimenn“ styðja það, en auðvitað fer því fjarri að Jón Steinar hafi einn fræðimanna stutt það. Mætti þar auðvitað nefna marga, en einna mest bar á Davíð Þór Björgvinssyni, prófessor og dómara við mannréttindadómstól Evrópu. En Jón Steinar hins vegar, sá mæti maður skrifaði raunar sérstaka blaðagrein þar sem hann sagðist andvígur frumvarpinu. Þessi eru örlög manna í nákvæmni íslenskra fjölmiðlamanna. Jón Steinar berst gegn tilteknu frumvarpi með oddi og eggju. Svo líður hálft annað ár og þá er hann í fréttaskýringu sérstaklega nefndur sem stuðningsmaður þess og raunar sá eini sem einhverju máli skipti.
Svona mætti telja áfram og áfram. Bara að lokum, svona svo að pistlahöfundar gleymist ekki alveg, þá má nefna að í einu tímamótastórvirki sínu á dögunum talaði Ólafur Hannibalsson um fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í áranna rás og sagði meðal annars: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnan um áratugi átt fylgi í borginni sem nægir fyrir a.m.k. sjö borgarfulltrúum. Stundum hefur hann unnið áttunda manninn á óhagstæðri skiptingu atkvæða milli sundraðra andstæðinga. Einstaka sinnum hefur hann gert betur og fengið meirihluta atkvæða og borgarfulltrúa, en það heyrir til undantekninga.“
Ef horft er hálfa öld aftur í tímann, þá hefur það tvisvar sinnum gerst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið 8 borgarfulltrúa án þess að fá 50 % eða meira af greiddum atkvæðum. Það hefur hins vegar fimm sinnum gerst að hann hafi fengið meirihluta með meira en 50 % atkvæða.