Föstudagur 12. maí 2006

132. tbl. 10. árg.
„…var merkinu ætlað að vekja athygli á launamun kynjanna. Þó slíkur munur sé ekki til staðar hjá Alcan á Íslandi þá kostuðum við að stærstum hluta gerð þessa barmmerkis enda hugmyndin góð og málefnið brýnt …“
– Úr frétt á íslenskri heimasíðu Alcan Inc., annars stærsta álframleiðanda í heimi.

Síðastliðið haust gaf Femínistafélagi Íslands út barmmerkið „króna konunnar“. Í krónuna vantar þriðjung en Femínistafélagið heldur því fram að konur hafi að jafnaði 35% lægri laun en karlar og það hlýtur að vera fyrir sambærileg störf og vinnutíma því annars væri vart ástæða til að standa í stappi um málið. Í frétt á heimasíðu Alcans kemur fram að fyrirtækið hafi kostað gerð merkisins að stærstum hluta þótt Alcan taki fram að enginn launamunur milli kynja sé til staðar hjá fyrirtækinu. Að sjálfsögðu upplýstu hvorki Alcan né Femínistafélagið hvaða fyrirtæki það eru sem greiða konum lægri laun fyrir „sambærileg“ störf. Það hljóta að vera til fyrirtæki sem greiða konum jafnvel 50% lægri laun en körlum úr því að stórir vinnustaðir eins og Alcan greiða jöfn laun og munurinn er að jafnaði um 35%. Ef Alcan og Femínistafélagið trúa því sem gefið er til kynna með „krónu konunnar“ þá eru til fyrirtæki hér á landi sem greiða konu helmingi lægri laun en karli fyrir sama starf; sama vinnutíma, sömu mannaforráð, sömu ábyrgð, sömu afköst, sama frumkvæði, sama starfsaldur, sömu menntun og svo framvegis. Hvaða fyrirtæki eru það?

En það var ekki nóg með að Alcan greiddi kostnaðinn við konukrónuna að stærstum hluta. Reykjavíkurborg veitt Femínistafélaginu sérstaka viðurkenningu og peningaverðlaun fyrir meðal annars þetta framtak. Því hefur verið haldið á lofti af forsvarsmönnum borgarinnar að borgin hafi náð miklum árangri í að draga úr launamun og hann sé minni en almennt gerist. Borgin er mjög fjölmennur vinnustaður. Á móti borginni þurfa því að koma ansi mörg fyrirtæki þar sem launamunur er meiri en króna konunnar gefur til kynna. Hvaða fyrirtæki eru það?

Það væri auðvitað fróðlegt að kynnast eins og einu þeirra óteljandi fyrirtækja sem greiða konum jafnvel helmingi lægri laun en körlum fyrir sama starf. Hvar sitja tveir sölumenn af gagnstæðu kyni hlið við hlið með sömu starfsreynslu og menntun og skila sömu afköstum en karlinn færi 300 þúsund krónur í mánaðarlaun en konan 150 þúsund?

Ef að slíkt fyrirtæki finnst hér á landi hlýtur það svo að vera áleitin spurning fyrir framkvæmdastjóra þess hvers vegna hann rekur ekki karlinn og ræður aðra konu á konukrónulaunum eða þaðan af lægri launum. Það er svo augljóslega mikið hagstæðara að það má furðu sæta að nokkur karl fái yfirleitt vinnu. Ef að marka má alþjóðlega álfyrirtækið Alcan Inc., Reykjavíkurborg og Femínistafélagið þá veita íslenskar konur almennt 35% afslátt af launum sínum. Styrktaraðilar Femínistafélagsins, Alcan Inc. og Reykjavíkurborg, hafa að vísu ekki þegið afsláttinn, að sögn.

Kannski dugar það til að útrýma kynbundnum launamun úr hugum fólks að öll fyrirtæki landsins styrki Femínistafélagið og segist saklaus af slíkum mun.