Margt bendir nú til að franskir kjósendur muni hafna nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin verður 29. maí næstkomandi. Og pólitíska elítan er að fara á taugum. Ekki að furða enda hefur hún lagt mikið undir, auk þess sem mikill tími hefur farið í hrossakaup til að ná samkomulagi um stjórnarskrána.
Pólitískri elítu ESB hefur jafnan verið mikið í mun að sambandið hafi lýðræðislegt yfirbragð. Nú þegar setja á sambandinu stjórnarskrá, sem er eitt stærsta skrefið í sögu þess í átt að samruna aðildarríkjanna í eitt ríki, hefur mönnum í fleiri löndum en nokkurn tíma áður þótt mikilvægt að það liti út eins og þjóðin tæki ákvörðunina. Því hafa 10 af 25 aðildarríkjum sambandsins ákveðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána, en öll aðildarríkin verða að samþykkja hana eigi hún að öðlast gildi. Mikið er því í húfi. Flest ríkin láta þó nægja að þingin samþykki hana.
„…að venju virðist fáum detta í hug að það sé einlægur vilji borgaranna að ekki verði komið á stjórnarskrá, að best væri að sætta sig við höfnunina og sætta sig við sambandið eins og það er, nú eða að stíga nokkur skref aftur á bak.“ |
Skoðanakannanir í Frakklandi hafa bent til þess að þjóðin muni hafna stjórnarskránni og virðist frekar skerpast á andstöðunni eftir því sem nær dregur. Samkvæmt nýjustu könnunum eru yfir 60% andvíg og tæp 40% hlynnt stjórnarskránni. Einnig getur brugðið til beggja vona í þjóðaratkvæðagreiðslunum í Bretlandi, Tékklandi og Póllandi. Auk þess er aldrei að vita hvað Danir gera þegar þeir ganga til kosninga eftir fimm mánuði, þótt kannanir nú bendi til þess að meirihlutinn muni samþykkja stjórnarskrána. Evrópusambandssinnum rennur kalt vatn milli skinns og hörunds. Enda yrði höfnun í þjóðaratkvæðagreiðslu vissulega áfall fyrir þá sem hlynntir eru enn frekari samruna Evrópuríkja í sífellt umsvifameira sambandi sem teygir anga sína æ meira yfir daglegt líf borgaranna í sambandinu. Sumir hafa haldið því fram að komi til þessa sé stjórnarskráin steindauð og upp muni koma alvarleg kreppa. Þó er varasamt að byrja að vona að það verði upphafið að endalokum ESB, hafni einhver þjóðin stjórnarskránni. Ekki er nefnilega ólíklegt að pólitískri elítu ESB detti eitthvert snjallræði í hug til að draga úr neikvæðum afleiðingum fyrir sambandið. Hún deyr ekki ráðalaus.
Það er þó ekki nokkur vafi að elítunni væri þóknanlegast ef borgarar þeirra ríkja, sem efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána, samþykktu hana. Það er draumastaðan. Það myndi auðvelda allt ferlið og líta lýðræðislega út, þó að það væri nú engu að síður lítið lýðræðislegt við það. Hvernig á almenningur að geta tekið skynsamlega afstöðu til einhvers sem hann þekkir afskaplega lítið? Samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar voru í Evrópusambandinu nýlega þá telur um 90% ESB-borgara sig vita lítið um stjórnarskrána.
Taugatitringur elítunnar er orðinn áþreifanlegur. Þrýstingurinn frá Evrópusambandssinnuðum stjórnmálamönnum á almenning í þessum löndum eykst nú mikið og eru menn byrjaðir að beita gamalkunnugum aðferðum í baráttunni, spila á tilfinningar, beita hræðsluáróðri og jafnvel hótunum.
Þannig er Jacques Chirac til dæmis farinn að tala um að hafni Frakkar stjórnarskránni óttist hann að Frakkland muni einangrast í Evrópu. Muni það bitna á hagsmunum Frakklands og veikja það, auk þess sem það muni stöðva frekari sameiningarþróun í Evrópu. Frakkar komi sum sé af stað mikilli óheillaþróun vogi þeir sé að hafna stjórnarskránni. Að hans mati er aðeins eitt rétt í þessu máli og allur almenningur er bara sauður sé hann ekki sammála. Hann mundi þá bera þá þungu ábyrgð að hafa sent ESB mörg ár aftur í tímann. Eða eins og Joschka Fischer utanríkisráðherra Þýskalands hefur sagt þá hvílir framtíð Evrópu á herðum franskra kjósenda. Hafni þeir stjórnarskránni, á ESB aðeins þann kost að notast við hinn ævaforna Nice-sáttmála frá árinu 2000 en hann er auðvitað orðinn alveg ónothæfur. Samkvæmt Joschka verður ekki hægt að semja um ný drög í nánustu framtíð. Ekki vantar dramatíkina. Það er deginum ljósara að í hugum þessara manna er útilokað að þeir séu sjálfir á villigötum og að kjósendur hafi hugsanlega rétt fyrir sér. Og þetta er viðkvæðið hjá stórum hluta elítunnar. Embættismenn í Brussel tala þannig um að trúverðugleiki sambandsins hyrfi, fjármálamarkaðir brygðust illa við og erfitt yrði að framkvæma stækkun sambandsins sem þegar er hafin. Peter Mandelson segir höfnun myndu valda algerri ringulreið, Jean-Claude Juncker forsætisráðherra Lúxemborgar segir að Evrópusamruninn myndi taka mörg ár að ná sér og Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, hefur sagt að Danmörk þyrfti hugsanlega að segja sig úr ESB hafni Danir stjórnarskránni. Höfnun myndi að minnsta kosti leiða til mikillar óvissu um framtíð Danmerkur í ESB og Evrópu.
Og að venju virðist fáum detta í hug að það sé einlægur vilji borgaranna að ekki verði komið á stjórnarskrá, að best væri að sætta sig við höfnunina og sætta sig við sambandið eins og það er, nú eða að stíga nokkur skref aftur á bak. Að það sé vilji borgaranna og honum beri vitanlega að fara eftir. Nei, umræðan snýst meira og minna um það hjá elítunni hvernig komist verði fram hjá vilja borgaranna, hafni þeir stjórnarskránni. Ber að semja um undanþágur, semja nýja stjórnarskrá, breyta þessari eða leggja hana einfaldlega fyrir að nýju, og svo framvegis? Allt annað en að fara að vilja þegnanna.
Það eru því engar líkur á að höfnun einnar eða fleiri þjóða á stjórnarskránni, sem nú liggur fyrir, verði til þess að hugað verði að því hvort Evrópusamruninn sé á rangri leið þó að það sé einmitt margt sem bendir til þess. Líklegast er að pólitísk elíta ESB komi málum þannig fyrir að vilji hennar nái fram að ganga engu að síður. Það er nánast öruggt að það mun hún gera hér eftir sem hingað til.
Þegar Danir höfnuðu Maastricht-sáttmálanum árið 1992 þá gerðu ríkin með sér samkomulag sem fólst í því að Danir fengu fjórar undanþágur frá samkomulaginu en féllust að öðru leyti á samninginn, svokallað Edinborgar-samkomulag. Þegar Írar höfnuðu Nice-sáttmálanum, nú þá var bara kosið aftur til að fá þá til að samþykkja. Þegar ríki hafa hafnað samkomulagi á einstökum sviðum, eins og Schengen eða um evruna, hafa ríki fengið undanþágur. ESB-elítan hefur verið einkar hugmyndarík við að keyra í gegn þá þróun sem henni er þóknanleg. Enda hefur talsmaður ESB-formennskulandsins, sem nú er Lúxemborg, gefið til kynna að hugsanlega verði málið tekið upp að nýju, hafni Frakkar stjórnarskránni.
Það er raunar hálfskondið að þessi vilji til að ákvörðunin um stjórnarskrána hafi á sér lýðræðislegt yfirbragð er að koma elítunni í gífurleg vandræði og fyrir vikið stingur enn meira í augun hversu ólýðræðislegt ferlið í raun er.