Þ
Viðskiptablaðinu þykir Geir H. Haarde greinilega ausa almannafé í allar áttir. |
að hefur tæpast farið fram hjá mörgum hve hún er mismikil, ánægja manna með fjárlagafrumvarpið sem fjármálaráðherra kynnti um mánaðamótin. Meðal þeirra sem ekki eru yfir sig hrifnir er Viðskiptablaðið en í síðustu viku skrifaði blaðið að ríkisstjórnin „virtist ekki hafa mikinn metnað í að auka verulega aðhald í rekstri ríkisins fyrir komandi uppsveiflu eins og Seðlabankinn hefur gefið til kynna að hún ætti að gera. Samkvæmt nýútkomnu fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir einungis 6,4 milljarða króna afgangi. Það er ekki mikill afgangur í ljósi þess að yfirleitt hafa útgjöld farið fram úr fjárlögum og má þannig lítið út af bera til að raunin verði halli.“
Töluverður sannleikur er í þessum orðum Viðskiptablaðsins. Það er alls ekki nægilegt aðhald í rekstri ríkisins og þar þurfa stjórnvöld að gera bragarbót og allir stjórnarliðar að leggjast á eitt. Vitaskuld gegnir fjármálaráðherra þar mikilvægustu hlutverki, það er hans hlutverk að fara fyrir sínum mönnum í aðhaldi og sparsemi, sporna fótum við útgjaldatillögum og vinda ofan af því sem farið hefur hratt í ranga átt á síðustu árum. En ábyrgðin er vitaskuld ekki hans eins, aðrir ráðherrar og ekki síður almennir þingmenn stjórnarflokkanna beggja verða að taka þátt í ábyrgri stjórn ríkisfjármálanna. Ráðherrar með því að hafa ekki frumkvæði að nýjum og nýjum útgjaldamálum í ráðuneytum sínum – að minnsta kosti ekki án þess að spara á öðrum sviðum á móti – og almennir þingmenn með því að snúast til andmæla gegn sífelldum söng þrýstihópanna. Ekki síst hvílir hér mikil ábyrgð á herðum þeirra þingmanna sem sitja í fjárlaganefnd alþingis, næstu tíu vikurnar verða þeir að hafa sterk bein og taka illa öllum heimsóknum. Að síðustu hvílir ábyrgð á herðum stuðningsmanna þessara þingmanna og ráðherra; þeir þurfa að krefjast sparsemi og ráðdeildar af sínum mönnum en ekki láta eyðslukórinn einan um orðið.
Á
Það er ekki aðeins svo að vikurnar hjá Stjórnvísi standi í fimm daga. Samkvæmt upplýsingum Vefþjóðviljans standa klukkustundirnar þar í korter. |
rið 1986 var stofnað félag sem nefnt var „Gæðastjórnunarfélag Íslands“. Sennilega hefur það nafn ekki þótt sýna snilld félagsmanna nægilega því félagið hefur nú fengið nýtt nafn, „Stjórnvísi“ og segist vera „félag um framsækna stjórnun“. Stjórnvísi hefur nú efnt til „stjórnunarviku“ og stendur hún nú sem hæst. Nánar til tekið stendur stjórnunarvikan yfir í fimm daga, frá 13. til 17. október.